Search
Close this search box.

Skref 3

3. Aðgerðaáætlun og markmið

Þriðja skrefið er að setja sér markmið og gera aðgerðaráætlun.
Hvað viljið þið gera? Hverju viljið þið breyta? Nemendur og starfsfólk taka virkan þátt.

Umhverfisnefnd gerir áætlun um aðgerðir og setur markmið sem tengjast því þema sem unnið er að. 

Gott er að setja markmið með niðurstöður mats á stöðu mála í huga (skref 2). 

Aðgerðaáætlun er kjarninn í starfi Grænfánans og aðstoðar við að halda utan um umhverfisstarfið í skólanum. 

 

Hvað ætlum við að gera og hvernig?

Niðurstöður umhverfismatsins (gátlistanna) í skrefi tvö veita skólum mikilvægar upplýsingar um stöðu mála í skólanum og eru þær notaðar til að gera markmið og aðgerðaáætlun fyrir næsta tímabil.

Skólar setja sér 5-6 markmið alls í þeim þemum sem unnið er að á hverju tímabili. Oft þarf margar aðgerðir til að ná hverju markmiði.

Miðað er við að skólar vinni að 1-2 þemu á hverju grænfánatímabili.

Markmiðablað – Aðgerðaáætlun

Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir grænfánavinnuna í skólanum. Mælt er með því að notast við markmiðablað/aðgerðaáætlun þar sem tilgreind eru markmið, aðgerðir, hver er ábyrgur, tímaramma o.s.frv.

Notkun á slíku skjali – sem er geymt á miðlægum stað, líkt og sameign eða í hvers konar skýi sem nefndin hefur aðgang að gerir grænfánastarfið gagnsærra og styður við það að dreifa ábyrgð á vinnunni. Gott er að opna skjalið á hverjum umhverfisnefndarfundi og skoða hvernig gengur.

Ganga þarf úr skugga um að markmið séu raunhæf og tímasett. Óraunhæf markmið hafa letjandi áhrif og standa umhverfisstarfi fyrir þrifum. 

Forgangsröðum

Hafi umhverfismatið leitt í ljós að skólinn þurfi að setja sér mörg markmið er óraunhæft að sinna þeim öllum í einu. Best er að forgangsraða og þannig vinna fyrst að fáum og aðkallandi verkefnum. Minna aðkallandi verkefni eru unnin síðar.

Hafa skal í huga

  • Voru markmiðin og aðgerðaráætlun gerð út frá niðurstöðum mats á stöðu umhverfismála (skref 2)?
  • Höfðu nemendur vægi við gerð markmiðanna?
  • Var unnið lýðræðislega innan skólans að gerð markmiðanna?
  • Eru markmiðin vel sýnileg (t.d. á veggjum skólans, á umhverfisfræðslutöflu eða heimasíðu)?
  • Hafa allir í skólanum verið fræddir um markmiðin?
  • Hefur verið unnið markvisst að markmiðunum?

Næsta skref

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is