Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf

Stutta svarið

Ísland tekur þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi um málefni sem tengjast m.a. heimsfriði, loftslagsmálum, lífbreytileika, mannréttindum, menningu, matvælum og heilbrigðismálum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Langt svar

Ísland er aðili að Sameinuðu þjóðunum, samtökum sem stofnuð voru eftir síðari heimsstyrjöld til að koma í veg fyrir frekari stríð. Öll viðurkennd sjálfstæð ríki í heiminum (nema Vatíkanið) eru meðlimir og reglulega er fundað um þau mál sem samtökin koma að. Einn megintilgangur Sameinuðu þjóðanna er að standa vörð um heimsfriðinn en þær koma einnig m.a. að málefnum eins og loftslagsmálum, lífbreytileika, mannréttindum, menningu, matvælum og heilbrigðismálum. Þeir samningar Sameinuðu þjóðanna sem snúa beint að náttúru og lífríki eru m.a. eftirfarandi.

  • Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun eru 17 talsins og eiga að leiða til betra lífs, lífsskilyrða og umhverfis árið 2030. Markmið 13 snýst um bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, markmið 14 snýst um að vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt og markmið 15 snýst um að vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri nýtingu og ræktun skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna gegn tapi á lífbreytileika. Heimsmarkmiðin eru leiðarljós alþjóða samfélags í átt að sjálfbærri þróun og sýnir vel tenginguna milli allra markmiða.
  • Kunming-Montreal rammasamningurinn var samþykktur árið 2022 á COP15 ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Samningurinn snýst um að vernda og endurheimta vistkerfi, vernda líffræðilega fjölbreytni (sérstaklega útdauða tegunda og viðhalda erfðafræðilegri fjölbreytni) og stuðla að sjálfbærri nýtingu lífvera á sanngjarnan hátt. 
  • Parísarsamkomulagið (eða Parísarsáttmálinn) var samþykkt árið 2015 á COP21 Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og þá sendi Ísland líkt og önnur aðildarríki Loftslagssamningsins inn svokallað landsmarkmið um samdrátt í losun til ársins 2030. Ísland tilkynnti að það myndi taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 miðað við árið 1990. Í byrjun árs 2021 uppfærði Ísland landsframlagið sitt og mun taka þátt í nýju markmiði ESB um 55% samdrátt í losun í stað 40% áður.
  • Ramsarsamningurinn um votlendi snýst um að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla.
  • Samningur um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun snýst um að vinna gegn eyðimerkurmyndun og draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka í löndum sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar.

 

Ísland hefur líka skrifað undir marga aðra alþjóðlega samninga m.a. um mengun, loftslagsmál og úrgangsmál.

Sjá einnig: COP ráðstefnur

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is