Search
Close this search box.

Kennslufræði menntunar til sjálfbærni

Menntun til sjálfbærni í skólastofunni

Menntun til sjálfbærni hjálpar nemendum við að uppgötva vandamálin og skilja af hverju þau eru til staðar og síðan að finna lausnir og breyta þeim í aðgerðir. Nemendur eiga að læra að taka upplýstar ákvarðanir um það að lifa á ábyrgan hátt gagnvart náttúrunni og í réttlátu samfélagi fyrir núverandi og komandi kynslóðir, með virðingu fyrir menningarlegum fjölbreytileika. Slík menntun byggir á kenningu hugsmíðahyggju þar sem litið er á lærdóm sem virkt ferli sem á sér stað á grunni eigin aðgerða og reynslu með nána tengingu við eigið líf og umhverfi. Hlutverk kennara er að vera leiðbeinandi og leiðtogi, ekki „bílstjóri“ heldur „hvetjandi ferðafélagi“.

Menntun til sjálfbærni miðlar nemendum bæði nauðsynlegri þekkingu til að skilja sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin og eflir ýmsa lykilhæfni til þess að geta tekið virkan þátt sem upplýstir borgarar sem vilja þróa áfram umbreytingu samfélags í átt að sjálfbærri þróun.

 

Markmið menntunar til sjálfbærni

Markmið menntunar til sjálfbærni er að auka og efla gildi,hæfni og getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Menntun til sjálfbærni er valdeflandi og umbreytandi ferli sem á að hafa áhrif á lífsstílsbreytingar hjá hverjum og einum auk þess að efla þau við virka þátt töku á samfélags- og kerfisbreytingum. Í menntun til sjálfbærni er verið að nálgast viðfangsefnin á þverfaglegan hátt með öll heimsmarkmiðin í huga. Mikil áhersla er lögð á að efla hnattræna vitund og réttlætiskennd.

Kennslufræði menntunar til sjálfbærni

Menntun til sjálfbærni byggir á kenningu um hugsmíðahyggju og notast við fjölbreyttar, þátttökuhvetjandi og leitandi kennsluaðferðir þar sem nemandinn er ávallt í brennidepli. Nemendur öðlast ýmsa lykilhæfni þar sem geta til aðgerða er aðalmarkmiðið. Geta til aðgerða er hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem ósjálfbær þróun veldur til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga.Umbreytingin sem stuðlað er að með menntun til sjálfbærni er stanslaust ferli og er hlutverk kennara að vera leiðbeinandi og leiðtogi þessa ferlis. Mikilvægt er að ferlið muni ekki einungis eiga sér stað í huganum heldur einnig í aðgerðum og framkvæmdum. Finna þarf aðgerðamöguleika í nærumhverfi og samfélagi og hvetja einstaklinga til að lifa eftir gildum sjálfbærrar þróunar sem eru m.a. nægjusemi, réttlæti og samkennd. Valdefling einstaklinga nær einnig til þess að efla þá til að taka beinan þátt í stjórnmálalegum ferlum og hafa þannig áhrif á þær stóru kerfisbreytingar sem þurfa að eiga sér stað.

Menntun til sjálfbærni miðlar nemendum bæði nauðsynlegri þekkingu til að skilja sjálfbæra þróun og heimsmarkmiðin og eflir ýmsa lykilhæfni til þess að geta tekið virkan þátt sem upplýstir borgarar sem vilja þróa áfram umbreytingu samfélags í átt að sjálfbærri þróun.

Þessi hæfni miðar m.a. að því að styrkja einstaklinga til að ígrunda og meta eigin gjörðir með hliðsjón af núverandi og komandi áhrifum á náttúru, samfélag, menningu og efnahag bæði frá staðbundu og hnattrænu sjónarhorni. Einstaklingar eiga að geta brugðist við flóknum aðstæðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og þróað og skapað nýjar hugmyndir og nálganir og tekið virkan þátt í samfélagslegum og stjórnmálalegum ferlum með það að markmiði að færa samfélög sín í átt að sjálfbærri þróun. Ýmis hæfni hefur verið nefnd í þessu samhengi og mismunandi kenningar hafa verið þróaðar en flestar innihalda þó m.a. hæfni til:

  • virkrar þátttöku
  • gagnrýninnar hugsunar
  • að skilja flókin viðfangsefni
  • þverfaglegrar hugsunar
  • samskipta og samvinnu
  • lýðræðisþátttöku
  • að leysa ágreining og/eða vandamál
  • að komast að niðurstöðu um álitamál
  • skapandi hugsunar
  • samkenndar
  • réttlætiskenndar
  • að átta sig á eigin ábyrgð

Að byrja...

Það getur verið erfitt að hugsa sér hvernig menntun til sjálfbærni getur tengst inn í daglegt skólastarf. Þá er gott að hugsa til þeirra kennslustunda þar sem náttúrufræði, umhverfismál, samfélagsmál eða efnahagsmál eru til umfjöllunar. 

En hverju þarf þá að breyta og bæta við, til þess að fá víðara sjónarhorn, betri tengingu við sjálfbæra þróun og virkari þátttöku nemenda? Hvernig er hægt að stuðla að valdeflingu nemenda? Mikilvægt er að hafa í huga að menntun til sjálfbærni næst ekki með því að vinna eitt verkefni heldur er það kennsluaðferð sem tengist öllu námi

 

Menntun til sjálfbærni á erindi í allar kennslustundir

Þema og innihald í menntun til sjálfbærni eiga að fjalla um allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. náttúru, samfélagsmál og hagkerfi og tengja þau saman á þverfaglegan og heildstæðan hátt. Hægt er að hafa mismunandi útgangspunkta út frá einni af þessum þremur stoðum og leggja síðan mismunandi áherslur. 

Hægt er að taka næstum því hvaða málefni sem er sem útgangspunkt og víkka það út í menntun til sjálfbærni annaðhvort í eigin kennslu eða í samvinnu við kennara annarra áfanga.

Mat á eigin kennslu

Í upphafi er gott að meta eigin kennslu, skoða hvernig megi bæta hana með menntun til sjálfbærni að leiðarljósi. Gott er að styðjast við þrjú mismunandi stig menntunar til sjálfbærni, hér má nálgast útskýringu á stigunum þremur ásamt eyðublaði sem hentar vel við mat á núverandi kennslu.

Lykilatriði í menntun til sjálfbærni er að nota þátttökuhvetjandi,
uppbyggjandi, leitandi og nýstárlegar kennsluaðferðir.

Fræðast meira

Fyrstu þrír kaflarnir í handbókinni Menntun til sjálfbærni fjalla um kennslufræðina á bakvið menntun til sjálfbærni. Þeir hafa það hlutverk að styðja við og um leið valdefla kennara til þess að innleiða og/eða dýpka menntun til sjálfbærni í kennslu sinni.

Þema - vefsíða (6)

Námsefni

Mikil aukning hefur orðið á námsefni sem styður við menntun til sjálfbærni. Aukið framboð á verkefnum, smiðjum og kennsluefni sem margir skólar sem styðja við menntun til sjálfbærni t.d. Grænfánaskólar nýta sér.

Námsefnið er samið af sérfræðingum Grænfánans og Landverndar

Hugtök

Við vinnum með ýmis hugtök í grænfánavinnunni, sem tengjast loftslagsmálum og náttúruvernd. Hugtök eru útskýrð með stutta svarinu og langa svarinu.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is