Search
Close this search box.

Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun

Stutta svarið

Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Gengið er út frá því að takmarkaðar auðlindir (náttúran) Jarðar myndi lokuð kerfi sem samfélag og hagkerfi eru hluti af. Helstu einkenni sjálfbærrar þróunar eru réttlæti innan og milli kynslóða, siðferðislegur grunnur, heildstæð sýn, alþjóðleg nálgun, þátttökunálgun, ný hagfræðileg stefnumörkun er nauðsynleg og framtíðarsýn.

Lengra svar

Í dag er sjálfbær þróun leiðarljós flestra ríkja heims og birtist m.a. í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það eru skýr tilmæli frá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) að róttækar breytingar þurfi að eiga sér stað innan samfélaga heimsins eigi þau að færast nær markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Núverandi merking á sjálfbærri þróun þróaðist í lok áttunda áratugs síðustu aldar og er áfram sú opinbera skilgreining sem alþjóðasamfélagið notar. Hún segir til um að sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Helstu einkenni sjálfbærrar þróunar eru réttlæti innan og milli kynslóða, siðferðislegur grunnur, heildstæð sýn, alþjóðleg nálgun, þátttökunálgun, ný hagfræðileg stefnumörkun er nauðsynleg og framtíðarsýn.

Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Gengið er út frá því að takmarkaðar auðlindir Jarðar myndi lokuð kerfi sem samfélag og hagkerfi eru hluti af. Það er grundvallaratriði og þar með nauðsynlegt að mannkynið virði náttúruna og athafni sig innan hennar takmarkana. Til þess að komandi kynslóðir geti nýtt auðlindir Jarðar liggur í augum uppi að við þurfum að nýta þessar auðlindir á þann hátt að náttúruleg endurnýjun þeirra geti átt sér stað þannig að við megum hvorki ofnýta, menga eða eyðileggja auðlindirnar. Við eigum að lifa á „vöxtum“ og varðveita „höfuðstól“ náttúrunnar. Staðan er því miður þannig að við höfum farið yfir þolmörk náttúrunnar í áratugi sem er að kalla fram loftslagsbreytingar, tap á líffræðilegri fjölbreytni, mengun og alvarleg hnignun vistkerfa.

Sjálfbær þróun krefst þess að fólk geti mætt frumþörfum sínum og að fátækt fólk verði að hafa tækifæri til að eignast betra líf. Einnig kallar hún á sanngjarna skiptingu á auðlindum Jarðar innan og á milli kynslóða. Því miður þá er sú skipting oft ósanngjörn í dag og ójöfnuður og óréttlæti hefur aukist bæði innan landa og milli landa.

Áherslur á hagvöxt og línulegt hagkerfi hafa m.a. í för með sér ofnýtingu, mengun, eyðileggingu náttúrulegra auðlinda, sívaxandi losun gróðurhúsalofttegunda og aukin ójöfnuð. Til þess að stuðla að sjálfbærri þróun þarf m.a. að gera breytingar á ríkjandi hagkerfi vestrænna ríkja.
Í dag eru það heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun sem eiga að vera leiðarljós í vegferð að sjálfbærri þróun. Öll aðildarríki SÞ, þar með talið Ísland, hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að heimsmarkmiðunum bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Markmiðin veita aðhald og leiðarljós og eru afgerandi skref til að leiða heimsbyggðina á braut sjálfbærrar þróunar. Þau krefjast aðkomu allra hvort sem það eru stjórnvöld, sveitarfélög, atvinnulífið, stofnanir eða einstaklingar. Heimsmarkmiðin tengjast öll innbyrðis, eru samþætt og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: náttúrunnar, samfélags og hagkerfis.

Sjá einnig: sjálfbærni, heimsmarkmiðin

Ítarefni

Handbók um menntun til sjálfbærni bls 102

Sjálfbærni krefst þess að hugsa út fyrir kassann

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is