Search
Close this search box.

Lífbreytileiki

Lífbreytileiki

Stutta svarið

Líffræðileg fjölbreytni eða einfaldlega lífbreytileiki á hverjum stað nær yfir allar lífverur, dýr, plöntur, sveppi og aðrar lífverur sem þar er að finna. Það er hægt að horfa á og meta lífbreytileika út frá þremur mismunandi sjónarhornum (sem eru öll tengd): 1. breytileika innan tegunda, 2. breytileika milli tegunda og 3. breytileika vistkerfa.
Á Íslandi er mikilvægast að horfa til breytileika innan tegunda og breytileika vistkerfa.

Lengra svar

Þróun lífvera hefur tekið milljónir ára og á þessum tíma hafa þróast ótal tegundir lífvera sem búa í margbreytilegum og kvikum vistkerfum. Lífbreytileiki felur í sér fjölbreytileika allra lífvera hér á jörðu, þ.e. plantna, dýra, sveppa og örvera. Það er hægt að horfa á og meta lífbreytileika út frá þremur mismunandi sjónarhornum (sem eru öll tengd): 1. breytileika innan tegunda, 2. breytileika milli tegunda og 3. breytileika vistkerfa.

Breytileiki innan tegunda. Einstaklingar af sömu tegund eru ólíkir. Skoðaðu nemendur og kennara í skólanum þínum. Þó að þið séu af sömu dýrategund eruð þið flest mjög ólík. Það að þið séuð ekki öll alveg eins er hluti af lífbreytileikanum á Jörðinni. Það sama á við um allar aðrar lífverur Jarðar. Innan tegunda eru líka mismunandi stofnar (hópar einstaklinga) sem eru aðlagaðir aðstæðum á hverjum stað. Ef einstaklingum af sömu tegund fækkar mjög mikið þá tapast lífbreytileiki. Dæmi um tegundir í bráðri hættu á Íslandi eru lundi og sléttbakur.

Breytileiki milli tegunda. Það eru um 8,7 milljón tegundir af dýrum, plöntum og sveppum til í heiminum og bara um 14% af þeim hafa verið skráðar (uppgötvaðar af vísindafólki). Bakteríur og veirur eru ekki taldar með en þær eru margfalt fleiri en dýr, plöntur og sveppir. Lífbreytileiki nær yfir allar þessar fjölmörgu tegundir lífvera á Jörðinni.

Breytileiki vistkerfa. Jörðin er risastór og á sumum stöðum er heitt og á öðrum stöðum er kalt. Á henni eru mismunandi lífbelti sem eru stór landsvæði sem hafa svipað loftslags og gróðurfar, t.d. regnskógar, eyðimerkur og freðmýrar (túndrur). Ísland flokkast sem freðmýri þó freðmýrarnar finnist aðallega á hálendinu. Hér eru ótal mörg ólík vistkerfi. m.a. birkiskógar, votlendi og hverasvæði. Þessi fjölbreyttu vistkerfi eru hluti af lífbreytileikanum. Auk þess geta birkiskógur eða hverasvæði á einum stað á landinu verið ólíkt sambærilegum vistkerfum annars staðar á landinu því það er breytileiki í samsetningu lífveranna sem þar lifa. Veðurfar og jarðvegur er oft ólíkt milli landshluta og vistkerfin hafa þróast í takt við það. Þessi breytileiki milli samskonar vistkerfa er einnig hluti af lífbreytileikanum.
Lífbreytileiki er mikilvægur til að vistkerfi geti brugðist við breytingum eins og þurrkum, sjúkdómum o. fl.

Lífbreytileiki á Íslandi

Á Íslandi eru merkilegar og óvenjulegar aðstæður þegar kemur að lífbreytileika. Hér eru fáar tegundir miðað við nágrannalöndin en einmitt þess vegna (meðal annars) þá hafa myndast hér góðar aðstæður fyrir þróun tegunda og jafnvel myndun nýrra tegunda (bleikjur í Þingvallavatni t.d.). Á Íslandi er því mikilvægt að horfa til breytileika innan tegunda og breytileika vistkerfa, en ekki einblína á tegundir. Mörg íslensk vistkerfi eru einstök og ólík öðrum vistkerfum í heiminum.

Á Íslandi eru eldfjöll, hraun, hverir og jöklar og mörg ólík og fjölbreytt búsvæði fyrir lífverur. Ísland er ung eyja í úthafinu og það er stutt frá síðasta jökulskeiði, eða bara um 10 þúsund ár. Þegar jökullinn bráðnaði (hopaði) byrjuðu tegundir að nema hér land. Þar sem þetta er frekar stuttur tími og langt í næsta meginland eru hér fáar tegundir miðað við nágrannalöndin og því lítil samkeppni milli tegunda. Vegna þess hafa margar lífverur á Íslandi aðlagast fjölbreyttum aðstæðum og þróast á annan hátt hér en annars staðar. Á Íslandi eru því góðar aðstæður fyrir þróun tegunda og jafnvel myndun nýrra tegunda. Á Íslandi fá lífverur fleiri tækifæri og hér eru dæmi um óvenjulega mikinn breytileika innan tegunda. 

Má þar nefna t.d. bleikjuna í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði hafa þróast innan einnar tegundar á einungis 10 þúsund árum. Þetta eru sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja en þær eru ólíkar í útliti, eiga sér aðskilin búsvæði og fæðan þeirra er líka mismunandi. Einnig hefur fundist mikill breytileiki hjá fleiri fiskategundum (m.a. hornsíli og þorski), hryggleysingjum (m.a. brekkubobba og járnsmið), plöntum (m.a. birki og víði), spendýrum (m.a. tófu og háhyrningum) og fuglum (m.a. rjúpu og tjaldi).

Fjórar séríslenskar tegundir smádýra eru þekktar, tvær tegundir mýflugna og tvær tegundir grunnvatnsmarflóa. Auk þessa hafa fundist nokkrar séríslenskar hverabakteríur. Mörg íslensk vistkerfi eru einstök og ólík öðrum vistkerfum í heiminum. Á Íslandi er mikilvægt að horfa til breytileika innan tegunda og breytileika vistkerfa, en ekki einblína á tegundir. 

Tap á lífbreytileika

Fimm helstu ógnir við lífbreytileika í heiminum eru: Tap á búsvæðum, ágengar framandi tegundir, ofveiði og ofnýting á lífverum, loftslagsbreytingar og mengun.

Maðurinn er dýrategund sem hefur gengið mjög vel. Stór heili og hugvit hefur hjálpað mannkyninu að dafna en það hefur bitnað á náttúrunni og raskað jafnvægi hennar. Gríðarlegt tap hefur orðið á lífbreytileika og vistkerfi Jarðar eru víða í mikilli hættu. Má þar nefna náttúruskóga, votlendi, vistkerfi á heimskauta- og háfjallasvæðum, kóralrif og þaraskóga. Þegar lífverustofnar minnka og einangrast eða tegundir deyja út vegna áhrifa mannsins þá er búið að raska jafnvægi náttúrunnar sem hefur tekið langan tíma að þróast. Tegundir sem deyja út er ekki hægt að endurheimta, þær koma ekki til baka.


Fimm helstu ógnir við lífbreytileika í heiminum eru:
1. Tap á búsvæðum
2. Ágengar framandi tegundir
3. Ofveiði og ofnýting á lífverum
4. Loftslagsbreytingar
5. Mengun


Áhrif okkar mannfólksins á einn hlekk í vistkerfi getur leitt til keðjuverkunar og þannig valdið meiri eyðileggingu en hægt var að ímynda sér í upphafi. Þegar villt dýr tapa búsvæðum sínum, t.d. vegna ósjálfbærs landbúnaðar, og þegar villt dýr eru seld lifandi sem matvæli eða gæludýr, þá geta sjúkdómar borist úr dýrum yfir í okkur mannfólkið. Með þessum hætti geta blossað upp heimsfaraldrar eins og raunin var með COVID-19. Rannsóknir sýna að verndun á lífbreytileika í vistkerfum komi í veg fyrir hættulega smitsjúkdóma sem geta borist í okkur mannfólkið. Það er því mikilvægt, ekki bara fyrir lífríkið, heldur líka okkur mannkynið, að breyta lífsháttum okkar og laga sambandið við náttúruna, m.a. að varðveita lífbreytileikann og endurheimta vistkerfi Jarðarinnar.
Tap á lífbreytileika ásamt loftslagsbreytingum eru stærstu ógnirnar við lífið á Jörðinni eins og við þekkjum það.

Verkefni fyrir yngri skólastigin

Hvað felur sig í jörðinni

Hvað þurfa plöntur

Ljóstillífunarleikurinn

Lífbreytileiki í grennd við skólans

Rannsókn á lífbreytileika

Verkefni fyrir miðstig grunnskóla og uppúr:

Getum við lifað án náttúrunnar

Plöntuskoðun

Fuglaskoðun

Rostungar og Víkingar

Námsefni

Náttúran okkar – námsefni fyrir miðstig grunnskóla um lífbreytileika, loftslagsmálin og vistheimt

Náttúra til framtíðar – námsefni fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla um vistheimt og náttúruvernd.

Lifandi náttúra – námsefni fyrir leikskólastigið og yngsta stig grunnskóla. Safn verkefna sem tengjast á einhvern hátt lífbreytileika.

Handbók menntunar til sjálfbærni bls.163

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is