Loftslagsréttlæti

Loftslagsréttlæti

Stutta svarið

Réttlæti er eitt af aðaleinkennum sjálfbærrar þróunar og heimsmarkmiðanna. Þar með eiga ríki heims að framfylgja stefnu um að stuðla að auknu réttlæti á öllum sviðum lífsins. Aðgerðir gegn loftslagshamförum eiga alltaf að taka mið af réttlæti og þar með af mannréttindum, félagslegu réttlæti og jafnrétti kynja. Leiðrétta þarf það mikla óréttlæti sem hefur átt sér stað varðandi orsakir og afleiðingar kolefnislosunar, óréttlæti í mörgum aðgerðum í loftslagsmálum og loftslagsbókhaldi og óréttlæti þegar kemur að mismunandi möguleikum á lífsafkomu og lífslíkum.

Lengra svar

Eitt af aðaleinkennum sjálfbærrar þróunar er réttlæti innan og milli kynslóða. Þar með eiga ríki heims að framfylgja stefnu um að stuðla að auknu réttlæti á öllum sviðum lífsins. Aðgerðir gegn loftslagshamförum eiga alltaf að taka mið af réttlæti og þar með af mannréttindum, félagslegu réttlæti og jafnrétti kynja. Hugtakið loftslagsréttlæti varpar ljósi á einmitt þetta.

Réttlæti á grunni sögulegrar og núverandi losunar: Þar sem söguleg losun milli ríkja hefur verið mjög misjöfn myndi loftslagsréttlæti m.a. fela í sér að þau lönd sem hafa sögulega losað lítið fengju stóran hluta af því kolefni sem enn þá stendur til að losa, til þess að byggja upp nauðsynlega innviði, minnka fátækt og stuðla að meiri velmegun.

Réttlæti á grunni áhrifa loftslagshamfara: Það ríkir mikið óréttlæti í því að þau lönd sem verða nú þegar hvað mest fyrir áhrifum loftslagshamfara bera minnsta ábyrgð á losuninni. Loftslagsaðgerðir eiga því að vinna gegn þessu óréttlæti.

Réttlæti m.t.t. aðlögunarmöguleika: Aðlögunarmöguleikar fólks í mismunandi löndum að loftslagsbreytingum eru mismiklir. Hætta er á því að til verði tveir flokkar af flóttafólki: þau sem hafa fjármagn og frelsi til að reyna að flýja frá hamfarasvæðum og síðan þau fátæku sem verða skilin eftir til að þjást af afleiðingunum eins og eyðileggingu, sjúkdómum og dauða. Nauðsynlegt er m.a. að deila í meira mæli þeim lífsgæðum sem til eru og að ríku löndin taki á móti flóttafólki.

Réttlæti m.t.t. uppruna losunar og notkunar: Í fátækum löndum er töluvert framleitt sem er síðan flutt til ríku landa og nýtt þar. Til að gæta að loftslagsréttlæti þyrftu ríku löndin að taka neyðsludrifið kolefnisspor inn í bókhald sitt þannig að kolefnislosun vara tilheyri ekki bókhaldi framleiðslulands heldur neyslulands.
Réttlæti milli fólks m.t.t. núverandi kynslóðar: Áhrif loftslagshamfara geta verið mismikil eftir því hvaða stöðu fólk hefur í samfélaginu, hvar það býr, eða eftir litarhætti, kynþætti, kyni, kynhneigð, aldri, efnahag o.fl. Þannig hafa loftslagshamfarir oft meiri neikvæð áhrif á fatlaða en ófatlaða, á fátæka en ríka og á konur en karla. Þessar staðreyndir þarf að hafa í huga við útfærslu á loftslagsaðgerðum.

Réttlæti milli fólks m.t.t. framtíðarkynslóða: Ef horft er á framtíðarspár vegna loftslagshamfara er ljóst að mikið óréttlæti á sér stað milli kynslóða. Það minnsta sem hægt er að gera núna er að núverandi kynslóð taki ábyrgð og fari í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru.

Ítarefni

Handbók um menntun til sjálfbærni bls. 160

Sjá einnig: Loftslagsbreytingar, hnattrænt réttlæti

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is