Átthagar og landslag

Átthagar og landslag

Grunnþættir aðalnámsskrár

Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti 17.Samvinna um markmiðin

Hvað er að finna í nærumhverfi skólans? Hvaða stofnanir og fyrirtæki er að finna í nágrenninu? Hvar búum við og hvernig komumst við í skólann? Getum við haft samband við fólkið í sem býr og starfar í kringum skólann? Getum við kennt þeim eitthvað eða lært eitthvað af þeim? Getum við haft áhrif á nærumhverfi okkar með einhverjum hætti, t.d. sett okkur í samband við sveitarstjórn ef það er eitthvað sem við viljum koma á framfæri? Hvernig lítur nærumhverfi skólans út? Eru hólar eða hæðir? Fjöll og dalir? Getið þið farið í ferð út fyrir skólann þar sem þið upplifið breytt landslag? Hvernig hefur landslagið myndast? Hvernig tengist landslagið sögunni? Hvaða örnefni í nærumhverfinu?

Skilgreining á átthögum og landslagi

Átthagar eru það umhverfi, náttúra og samfélag sem tilheyrir heimabyggð okkar. Hægt er að skipta átthögum gróflega í nærumhverfi annars vegar og nærsamfélag hins vegar. Til nærumhverfis telst þá það sem er að finna í umhverfinu, bæði náttúrulegt landslag, s.s. fjöll og dalir, fossar og fjörur, og manngert umhverfi s.s. byggingar, vegir, stígar og almenningsgarðar svo eitthvað sé nefnt. Til nærsamfélagsins teljast svo íbúar samfélagsins og það sem þeir hafa byggt upp, s.s. félög, samtök, stofnanir, fyrirtæki og önnur samfélagsfyrirbæri.

Hvernig er best að vinna með átthaga og landslag?

Í þessu þema felst að kynna nemendum átthaga sína, efla umhverfis- og samfélagsvitund og lýðræðisleg vinnubrögð. Eitt af hlutverkum skóla er að undirbúa nemendur undir þátt- töku í lýðræðisþjóðfélagi eins og fram kemur í aðalnámskrá. Mikilvægur hluti þessa þema er því að vinna með það sem felst í að vera þegn í lýðræðisþjóðfélagi og finna út með hvaða hætti nemendur geti haft áhrif í sínu nærumhverfi og samfélagi. Þannig er mikilvægt að nemendur þekki lýðræðisleg vinnubrögð, stjórnsýslu og helstu boðleiðir sem þeim tengjast innan samfélagsins og haft samskipti við aðila í sveitastjórn eða stofnunum í nærsamfélaginu. Mikilvægt er að nemendur læri að mynda sér skoðun og tjá skoðun sína á mismunandi málefnum. Einnig að þjálfa nemendur í gagnrýninni hugsun, rökhugsun og málamiðlunum, því ekki eru alltaf allir sammála. Gott er að vinna við þemað samkvæmt hugtakinu getu til aðgerða.

Hægt er að vinna að þemanu með vettvangsnámi af ýmsu tagi. Sem dæmi má nefna ferðir út fyrir skólann þar sem nemendur kynnast bæði umhverfi og samfélagi, útikennslu hvers konar og gönguferðir úti í náttúrunni. Í þessum ferðum má kynna nemendum margbreytileika íslensks landslags sem einkum hefur mótast af samspili jarðelda og jökla. Í tengslum við það má kynna fyrir nemendum lista- og skáldverk innblásin af íslensku landslagi.

Af hverju er mikilvægt að þekkja átthaga og landslag?

Þekking á nærumhverfinu eykur virðingu fyrir því og hvetur til bættrar umgengni. Einstak- lingar sem umgangast og þekkja náttúrulegt landslag í sinni heimabyggð eru líklegri til að taka afstöðu með náttúrunni og þannig stuðla að vernd hennar. Með því að kynnast stofnunum og fyrirtækjum í nærsamfélaginu læra nemendur betur á samfélagið sem þeir búa í og vita hvert þeir eiga að leita um ákveðin málefni. Þetta styrkir ennfremur lýðræðið en í gegnum þemað geta nemendur kynnst sveitarstjórn í sinni heimabyggð og komið með tillögur að því sem má bæta í samfélaginu. Þannig læra nemendur að þeir geta haft áhrif á samfélag sitt og umhverfi til hins betra. Þeir læra einnig að þeir sem einstaklingar eru mikilvægur hluti af sínu samfélagi.

Það er nauðsynlegt að ríkis- og sveitarstjórnir, fyrirtæki og stofnanir hafi umhverfi og samfélag ætíð í fyrirrúmi við allar ákvarðanir og gjörðir. Einstaklingar samfélagins hafa vald til að setja pressu á þessa aðila til að huga að þessum málum. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað!

Þar sem sjálfbærni snýst um velferð og vellíðan allra Jarðarbúa er lýðræði afar mikilvægur þáttur sjálfbærni. Í raun er ómögulegt að vinna að sjálfbærni án lýðræðis. Allir þurfa að geta látið rödd sína heyrast til að breytingar geti átt sér stað. Það þarf að byrja snemma að þjálfa nemendur í að hlusta á aðra, setja sig í spor annarra og vinna saman að sameiginlegum ákvörðunum.

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is