Search
Close this search box.

Hnattrænt réttlæti

Hnattrænt réttlæti

Grunnþættir aðalnámsskrár

Sjálfbærni, heilbrigði og velferð, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

1.Engin fátækt 2.Ekkert hungur 3.Heilsa og vellíðan 4.Menntun fyrir alla 5.Jafnrétti kynjanna 6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 10.Aukin jöfnuður 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 16. Friður og réttlæti 17.Samvinna um markmiðin

Hvernig tengjumst við öðrum heimshlutum? Hvernig hafa nemendur það annars staðar? Búa allir við í heiminum við félagslegt réttlæti? Hefur lífstíll okkar einhver áhrif á líf fólks annars staðar í heiminum? Getum við sett okkur í samband við nemendur annars staðar í heiminum?

Skilgreining

Hnattrænt jafnrétti snýst um jafnan rétt allra jarðarbúa til að uppfylla ákveðnar grunn- þarfir. Þetta eru þarfir eins og aðgangur að mat og vatni, skjól gegn veðri og vindum, aðgangur að heilsugæslu, vörn gegn sjúkdómum og hvers konar ofbeldi, aðgangur að menntun, réttlæti og félagskap við annað fólk. Allir eiga jafnt tilkall til alls þessa óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, kynhneigð, tungu, trú, skoðun, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum.

Allir hafa sama rétt, óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, kynhneigð, tungu, trú, skoðun, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðru
Réttur allra jarðarbúa til þessara grunnþarfa hefur verið samþykktur með alþjóðlegum sáttmálum m.a. Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, sem samþykkt voru árið 2015, kveða einnig á um þætti sem tengjast hnattrænu jafnrétti.

Hver er staða hnattræns jafnréttis í heiminum í dag?

Þó flest okkar geti verið sammála um þessi atriði, búa langt því frá allir jarðarbúar við aðstæður sem tryggja þessar grunnþarfir. Víða býr fólk ekki við aðgang að hreinu vatni, jafnvel í kofum sem uppfylla á engan hátt það sem talist getur mannvistarhæft húsnæði. Fjöldi barna gengur ekki í skóla, býr við ofbeldi heima fyrir eða annars staðar og þannig mætti lengi telja.

Á sama tíma neytir fjöldi fólks mun meira en það þarf. Sóun á mat, fatnaði og raftækjum er með alvarlegri umhverfisvandamálum okkar tíma. Það er því langt því frá að auðlindum Jarðar og lífsgæðum sé skipt með réttlátum hætti og neytir hver einstaklingur á Vesturlöndum að meðaltali mun meira af auðlindum Jarðar en íbúar fátækari ríkja.

Auðlindum Jarðar er mjög misskipt á milli jarðarbúa

Hvernig færumst við nær hnattrænu jafnrétti?

Segja má að sjálfbærni sé það þegar allir jarðarbúar lifa eins góðu lífi og hægt er án þess að ganga á auðlindir og gæði jarðar, fólk og aðrar lífverur. Með þróun í átt að sjálfbærni er því leitast við að jafna muninn á milli þeirra sem búa við bestu lífsskilyrðin og þeirra sem búa við lakari skilyrði. Þannig þyrftu þeir sem neyta mest og búa við bestu lífskjörin að sætta sig við aðeins minna en þeir neyta í dag og þeir sem hafa það verst þyrftu að komast á þann stað að þeir nái að uppfylla allar grunnþarfirnar á mannsæmandi hátt. Allt þarf þetta að sjálfsögðu að gerast innan þeirra marka sem auðlindir jarðarinnar setja okkur. Til að svo megi verða þurfa þjóðir heims jafnframt að fylgja alþjóðlegum samning- um og sáttmálum sem kveða á um réttlæti og jafnrétti jarðarbúa.

Við þurfum að sætta okkur við aðeins minna af veraldlegum gæðum en við höfum í dag

Af hverju er mikilvægt að vinna með hnattrænt jafnrétti?

Einn tilgangurinn með þemanu hnattrænt jafnrétti er að nemendur og starfsfólk skóla verði meðvitað um að gjörðir þeirra geti skipt máli í því að bæta kjör og aðstæður fólks annars staðar í heiminum. Þannig hvetur þemað m.a. til meðvitaðri og hófstilltari neyslu. Einnig hvetur það til þess að nemendur kynnist öðrum hlutum heimsins en sínum eigin, kynnist ólíkum menningarheimum og átti sig á því að allir Jarðarbúar eiga jafnan rétt til að lifa mannsæmandi lífi.

Mannréttindayfirlýsing Samneinuðu þjóðanna

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember 1948. Hún kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þar segir jafnframt að sérhver manneskja sé borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum (Utanríkisráðuneytið, 2008).

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til Barnasáttmálinn, eða Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember 1989. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í fyrri mannréttindasamningum. Í honum felst einnig viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi og að þau hafi réttindi sem oft séu óháð réttindum fullorðinna (Umboðsmaður barna, 2014).

Barnasáttmálinn kveður á um að börn þarfnist verndar umfram hina fullorðnu

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is