Náttúruvernd

Náttúruvernd

Grunnþættir aðalnámsskrár

Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 7.Sjálfbær orka 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti

Náttúruvernd snýst um verndun lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað.

Skilgreining

Náttúruvernd snýst um verndun lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað. Ýmsum aðferðum má beita við náttúruvernd en ein þeirra er friðlýsing land- og hafsvæða. Með því móti má vernda búsvæði lífvera eða sérstæðar jarðmyndanir, landslag eða víðerni.

Til hvers náttúruvernd?

Mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni og eru háðar henni um fæðu og búsvæði, vatn og loft. Því er náttúruvernd í grunninn nauðsynleg öllu lífi. Í umræðu um náttúruvernd er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að náttúran sem slík hefur ákveðið gildi, hún er ekki eingöngu til staðar svo við mannkynið getum nýtt hana heldur hefur hún einnig tilvistarrétt í sjálfri sér. Náttúran getur ekki talað fyrir sig sjálf, hún getur ekki sagt skoðun sína eða látið reyna á ákvarðanir fyrir dómstólum. Það er því mikilvægt að hún eigi sér málsvara þegar kemur að nýtingu auðlinda og röskun landssvæða, eins og t.d. náttúruverndarsamtök. Enn mikilvægara er að við Jarðarbúar sammælumst um að umgangast hana af virðingu og hófsemi og tökum skynsamlegar ákvarðanir í nýtingu auðlinda og röskun landsvæða okkur í hag.

Mannkynið og aðrar lífverur eiga allt sitt undir náttúrunni

Hvað með náttúru Íslands?

Hvergi í heiminum er viðlíka fjölbreytni í jarðmyndunum sem mótast hafa af samspili elds og íss og á Íslandi. Við búum yfir tiltölulega hreinu lofti og vatni og á hálendinu er að finna víðerni sem eru óbyggð og að stórum hluta ósnortin af beinum athöfnum manna. Þó Ísland sé ekki tegundaauðugt land í samanburði við sambærileg svæði á öðrum breiddargráðum eða svæði sunnar á Jarðarkringlunni er tegundasamsetning sumra lífveruhópa hér einstök og hefur hún þróast í takt við náttúruöflin í árþúsundir. Íslensk náttúra er að sama skapi viðkvæm eins og alvarleg og langvarandi gróður- og jarðvegseyðing á landinu sannar. Gróður og jarðvegshula sem einu sinni er horfin jafnar sig seint. Dagur íslenskrar náttúru er 16. september, á fæðingardegi Ómars Ragnarssonar, en hann hefur barist ötullega fyrir hönd íslenskrar náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september

Af hverju er mikilvægt að vinna með náttúruvernd?
Ein forsenda þess að fólk virði náttúruna, verndi og taki skynsamlegar ákvarðanir varðandi nýtingu hennar, er að það kynnist náttúrunni og átti sig á mikilvægi hennar. Til að kynnast náttúrunni er mikilvægt að upplifa hana með því að dvelja í henni, njóta hennar og umgangast hana af virðingu. Ýmsar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að umgengni við náttúruna bæti bæði andlega og líkamlega heilsu. Það er því mikilvægt að byrja snemma að kynna nemendum náttúru landsins, bæði í heimabyggð og á fjarlægari svæðum.

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is