Search
Close this search box.

Neysla og hringrásarhagkerfið

Neysla og hringrásarhagkerfið

Grunnþættir aðalnámsskrár

Þemað fellur vel að öllum grunnþáttum aðalnámskrár

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

1. Engin fátækt 2. Ekkert hungur 4. Menntun fyrir alla 7. Sjálfbær orka 8. Góð atvinna og hagvöxtur 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftslagsmálum 16. Friður og réttlæti

Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? Við þurfum að endurhugsa framtíðina. Neysla og hringrásarhagkerfið er eitt af þemum Grænfánans.

Skilgreining

Allt sem við jarðarbúar gerum hefur áhrif á aðra og umhverfið alls staðar á jörðinni. Áhrifin eru mismikil, til dæmis eftir því hvar við búum, hvað við eigum mikinn pening og hvað við erum gömul. Við erum öll neytendur. Allt sem við kaupum, borðum og notum kemur frá jörðinni. Fötin sem við klæðumst, maturinn sem við borðum, tölvan á heimilinu, sjónvarpið, fjarstýringin og lengi mætti áfram telja. Með aukinni tækni og framþróun í samfélaginu hafa kröfur okkar og tækifæri aukist mikið. Í dag er mun meira til af fötum, framandi matvælum og tækjum á heimilum okkar en áður var samhliða þessu hefur neysla aukist. Mikilvægt er að við þekkjum öll áhrifin sem líf okkar hefur á jörðina og kunnum að bregðast við þeim.

Hverjar eru afleiðingarnar?

Framleiðsla neysluvara skilur í flestum tilvikum eftir sig gífurlegt vistspor m.a. vegna orkunnar sem fer í framleiðslu hennar, flutning til neytanda auk annarra auðlinda sem nýttar eru. Orkan er oft fengin með bruna kola eða olíu sem losa mikið magn koltvísýrings út í andrúmsloftið. Þetta leiðir til aukinna loftslagsbreytinga og hnignunar lífbreytileika, að ekki sé minnst á mannréttindin sem hugsanlega eru brotin í öllu ferlinu. Öll þurfum við jú að lifa og nærast þannig að það er ómögulegt að sneyða hjá allri neyslu.

Hvað getum við gert?

Til þess að lágmarka skaðann er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim afleiðingum sem neyslan hefur í för með sér og byrja strax að huga að eigin neyslu. Ein leiðin er að stunda eftir fremsta megni ábyrga og sjálfbæra neyslu.

Sjálfbær neysla er sú neysla sem er umhverfis- og samfélagslega ábyrg. Þegar við neytum einhvers er mikilvægt að gera sér grein fyrir, eftir því sem frekast er kostur, hvaðan afurðin kemur, hvernig hún varð til og hverjir komu að gerð hennar. Oft vinnur fátækt fólk í fjarlægum löndum við framleiðsluna sem býr og vinnur við aðstæður sem aldrei væru samþykktar á Vesturlöndum. Með þessum hætti tengist neysla okkar mannréttinda- og jafnréttismálum annars staðar í heiminum. Ef sem flestir huga að umhverfis- og siðferðislegum þáttum þess sem þeir neyta eykst eftirspurn eftir vörum þar sem að þessu er gætt í framleiðsluferlinu. Það setur pressu á verslanir og framleiðendur að huga einnig að þessum þáttum. Þannig geta neytendur haft jákvæð áhrif.

Það er því ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga áður en vara er keypt: Hvar og hvernig var varan framleidd? Þurfti varan að ferðast víða í framleiðsluferlinu? Hverjir unnu við framleiðsluna? Hvernig eru aðstæður þeirra?

Ein mikilvægasta leiðin til að minnka magn úrgangs og stuðla að ábyrgari neyslu er að meta hvort við þurfum raunverulega á vörunni að halda áður en við kaupum hana. Hversu oft þurfum við að skipta um síma, raftæki, bíla, föt og húsmuni? Getum við í staðinn nýtt það sem við eigum eða keypt notaða hluti? Er hægt að nýta það sem við hendum með öðrum hætti? Önnur einföld atriði eru að kaupa umbúðalausar vörur eða vörur í fyrirferðarlitlum umbúðum, fara með fjölnotapoka út í búð, kaupa vörur í stærri einingum, molta lífrænar matarleifar, rækta eigið grænmeti, minnka hlut dýraafurða í fæðunni, sóa ekki mat og kaupa vörur úr heimabyggð svo fátt eitt sé nefnt.

Af hverju er þetta mikilvægt?

Þó við reynum eftir fremsta megni að minnka þann úrgang sem til fellur við neyslu okkar er erfitt að koma í veg fyrir allan úrgang. Því sem óhjákvæmilega til fellur er best að koma í farveg endurnýtingar eða endurvinnslu. Þannig fer hráefnið sem úrgangurinn samanstendur af í hringrás og nýtist sem nýtt hráefni í nýja vöru. Líftími hráefnisins lengist þannig og við komum í veg fyrir að það endi úti í náttúrunni sem mengun. Pappír, plast, málm og gler má endurvinna án þess að gæði vörunnar breytist mikið. Auk þess er yfirleitt notuð mun minni orka við endurvinnslu en við framleiðslu á nýrri vöru.

Helst ætti ekkert sem til fellur að fara í urðun. Við urðun á lífrænum úrgangi myndast t.d. metangas sem er afar öflug gróðurhúsalofttegund, mun öflugri en koltvísýringur. Metanið er þó hægt að nýta sem eldsneyti, t.d. á bíla og er það betra en að það endi í andrúmsloftinu. Sé það ekki gert er lykilatriði að koma í veg fyrir myndun lífræns úrgangs með því að sóa ekki mat og molta það litla sem til fellur.

Höldum hlutunum í hringrás

Í hringrásarhagkerfi er lögð áhersla á að hönnun og framleiðsla vöru sé með þeim hætti að hægt sé að endurnota og gera við vöruna til að lengja líftíma hennar og halda auðlindum hennar í hringrás. Einnig er gætt að varan er þannig framleitt að hún henti til endurvinnslu þegar ekki er lengur hægt að endurnota hana. Til að tryggja að auðlindum sé haldið í hringrás er mikilvægt að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. 

Hagkerfið okkar í dag er línulegt. Það þýðir að auðlindir eru teknar til að framleiða hluti, hlutirnir eru síðan notaðir og svo hent eftir notkun. Slíkt gengur ekki upp til lengdar þar sem auðlindir eru ekki ótakmarkaðar og úrgangur mengar náttúruna og skaðar hana og okkur. Þess vegna er mikilvægt að breyta úr línulegu hagkerfi í hringrásarhagkerfi þar sem markmiðið er að draga úr auðlindanotkun og lágmarka úrgangsmyndun og mengun með því að koma vörum og hráefnum í hringrás. Hringrásarhagkerfið er því mikilvægur þáttur í því að minnka ósjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, losun gróðurhúsalofttegunda, tapi á líffræðilegri fjölbreytni, úrgangi og mengun.

Í hringrásarhagkerfi er lögð áhersla á að hönnun og framleiðsla vöru sé með þeim hætti að hægt sé að endurnota og gera við vöruna til að lengja líftíma hennar og halda auðlindum hennar í hringrás. Einnig er gætt að því að varan sé þannig framleidd að hún henti til endurvinnslu þegar það er ekki lengur hægt að endurnota hana. Helstu aðgerðir sem stuðla að hringrásarhagkerfi liggja í framleiðsluferli og síðan í að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.

Hugmyndarfræði hringrásarhagkerfis er margþætt og nær einnig til nauðsynlegrar viðhorfsbreytingar þar sem við þurfum að tileinka okkur hringrásarhugsun á öllum sviðum og endurmeta og endurskilgreina lífsgæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is