Search
Close this search box.

Orka

Orka

Grunnþættir aðalnámsskrár

Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

 4.Menntun fyrir alla 6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 7.Sjálfbær orka 9. Nýsköpun og uppbygging 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 16. Friður og réttlæti

Hvaðan kemur orkan? Hvernig orku notum við á Íslandi? Hver eru umhverfisáhrif mismunandi orkugjafa? Hver eru umhverfisáhrif þeirra orkugjafa sem við notum hér á landi? Eigum við nóg af orku í heiminum? En á Íslandi? Hvernig er orkan nýtt? Hvernig getum við sparað orku?

Skilgreining á orku

Orkan er allt í kringum okkur, t.d. er sólin risastór uppspretta ljós- og varmaorku. Bílar nota bensín, rafmagn eða aðra orkuuppsprettu sem umbreytt er í hreyfiorku til að knýja bílinn áfram. Meira að segja maturinn sem við borðum er hlaðinn orku sem við brennum og knýjum þannig okkur sjálf áfram. Orku er umbreytt í rafmagn sem er nauðsynlegt til að knýja vélar og tæki sem við notum í daglegu lífi, s.s. tölvur og síma, heimilistæki, farartæki og framleiðslutæki. Nútímaheimilishald, iðnaður og framleiðsla eru því algjörlega háð orku og er aðgengi að orku lykilatriði í nútímasamfélagi.

Hvernig mælum við orku?

Algeng mælieiningar til að mæla orku eru kaloría (hitaeining) og Júl. Ein kaloría er sú orka sem þarf til að hita eitt gramm af vatni um eina gráðu. Ein kaloría eru 4,2 júl.

Algeng mælieining til að mæla raforku er kílóvattstund (kWh) en ein kílóvattstund er sú orka sem fæst þegar aflinu 1 kW (kílóvatt) er beitt í eina klukkustund. Kílóvattstund er sú mælieining raforku sem notuð er til að mæla rafmagnsnotkun neytenda.

Hvað er endurnýjanleg og óendurnýjanleg orka?

Orku má fá með mismunandi hætti og má gróflega skipta orkuauðlindum í endurnýjan- legar orkuauðlindir annars vegar og óendurnýjanlegar orkuauðlindir hins vegar. Endurnýjanleg orka er sú orka sem kemur frá orkuauðlind sem endurnýjast og klárast því ekki þó hún sé nýtt. Óendurnýjanleg orkuauðlind klárast hins vegar smátt og smátt ef gengið er á hana. Sem dæmi um endurnýjanlega orku má nefna sólar- og vindorku en jarðefna- eldsneyti, s.s. kol, olía og gas, er dæmi um óendurnýjanlega orku.

Er til sjálfbær orka?

Endurnýjanleg orka er vissulega sjálfbærari en óendurnýjanleg orka. Samt sem áður er ávallt mikilvægt að huga að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Þó að endurnýjanlegar orkuauðlindir hafi þann mikilvæga eiginleika að geta endurnýjast, þá er sú hætta fyrir hendi að þær séu nýttar of mikið eða of hratt og er þá talað um ósjálfbæra nýtingu. Best er að nota endurnýjanlega orkugjafa og nýta þá á sjálfbæran hátt.

Hvaðan fáum við á Íslandi orkuna?

Á Íslandi fáum við orku til raforkuframleiðslu fyrst og fremst úr vatnsafli (um 3⁄4 hlutar) og jarðhita (um 1⁄4 hluti). Vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir er að finna víðsvegar um landið og er orkan leidd með raflínum í lofti og í jörðu á þá staði þar sem hún er nýtt. Orka úr vatnsafli og jarðhita er almennt talin endurnýjanleg en um það má þó deila hvort nýtingin sé í öllum tilvikum sjálfbær og fer það eftir nýtingarhraða og nýtingartíma virkjana. Einnig er mikilvægt að huga að öðrum þáttum eins og áhrifum vatnsafls- og jarðvarmavirkjana á lífríki og sjónræn áhrif þeirra en margar þeirra eru reistar á lítt snortnum svæðum. Það er þó ótvíræður kostur við vatnsafls- og jarðhitavirkjanir að þær losa mun minna af gróð- urhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en virkjanir sem brenna jarðefnaeldsneyti.

77% þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi er notuð í stóriðju, s.s. framleiðslu málma en það er sú iðngrein sem losar mestar gróðurhúsalofttegundir á Íslandi á eftir flugsamgöngum. Almenningur og fyrirtæki nota aðeins um 17,9 % alls rafmagns sem framleitt er á landinu (Orkustofnun, 2019). Þó sú orka sem nýtt er til rafmagnsframleiðslu og húshitunar á Íslandi sé úr vatnsafli og jarðvarma er allt jarðefnaeldsneyti sem við notum í samgöngur, stóriðju og annað flutt til landsins .

Þjálfun í gagnrýnni hugsun

Mikið hefur verið deilt um virkjanir hér á landi og er mikilvægt að virkja umræðu á meðal nemenda um allar hliðar mála. Þannig má tengja þemað orku við þemað náttúruvernd og grunnþáttinn lýðræði og mannréttindi.

Hver eru áhrif orkunýtingar á umhverfi og samfélag?

Aldrei í sögu jarðarinnar hefur orkuþörfin verið eins mikil og hún er í dag en hana má fyrst og fremst rekja til hinnar miklu neyslu sem nútímalifnaðarhættir byggjast á. Í öllum tilvikum krefst nýting orku einhverskonar fórnar fyrir umhverfið en markmiðið ætti alltaf að vera að hafa umhverfisáhrifin sem allra minnst. Umhverfisáhrif geta verið af ýmsum toga, svo sem útblástur gróðurhúsalofttegunda, eyðing eða uppskipting búsvæða fyrir lífverur, eyðilegging jarðminja og hávaða- og sjónmengun. Víða um heim er jarðefnaeldsneyti brennt í stórum stíl til að knýja verksmiðjur sem framleiða neysluvörur sem síðan eru fluttar langar leiðir með skipum sem einnig brenna jarðefnaeldsneyti. Þetta hefur í för með sér mikla losun koltvísýrings út í andrúmsloftið sem aftur leiðir til aukinna gróðurhúsaáhrifa. Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að hnattrænu jafnrétti og því að umhverfi og samfélag annarra heimshluta líði ekki fyrir neyslu okkar en vörur sem við nýtum eru oft framleiddar í fjarlægum löndum þar sem náttúrulegur og samfélagslegur fórnarkostnaður orkuvinnslunnar er mikill.

Neyslan sem fylgir nútímalifnaðarháttum krefst mikillar orku.

Ákvarðanir um það hvort og hvar virkjanir séu reistar geta haft mikil áhrif á velferð samfélags og umhverfis og vega þar fjárhagslegir hagsmunir oft þyngra en hagsmunir umhverfisins. Hagsmunir mismunandi samfélagshópa geta í þessum tilvikum rekist á. Mikilvægt er að sjónarmið allra hópa fái að heyrast og að skynsamlegar ákvarðanir séu teknar við nýtingu. Hér er mikilvægt að almenningur og yfirvöld vinni saman að lausnum sem hafa sem minnst umhverfisáhrif og standist skuldbindingar alþjóðlegra sáttmála.

Af hverju er mikilvægt að vinna með orku?

Það er mikilvægt að halda því til haga að sjálfbærni snýst um það að allir Jarðarbúar lifi eins góðu lífi og hægt er innan þess marka sem náttúran setur okkur. Í því felst meðal annars að allir Jarðarbúar hafi aðgang að rafmagni og vatni. Til að svo geti orðið er mikilvægt að huga að því hvaðan orkan kemur, í hvað hún er notuð og hver fórnarkostnaðurinn er við virkjun orkuauðlinda til nýtingar. Orka er ekki bara nýtt þegar við kveikjum ljós heldur er orka nýtt í framleiðslu allra vara sem við nýtum okkur. Þekking á orku gefur nemendum forsendur til að verða meðvitaðri neytendur enda hefur ábyrg neysla orkusparnað í för með sér.

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is