Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi
4.Menntun fyrir alla 6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 9.Nýsköpun og uppbygging 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti
Vistheimt er ferli sem stuðlar að bata vistkerfis8 sem hefur hnignað, skemmst eða eyðilagst. Vistkerfi eru samfélög plantna, dýra, sveppa og örvera og samspil þeirra við umhverfi sitt og mynda þau grundvöll þess að líf þrífist hér á Jörð. Í vistheimt er ákveðnum aðgerðum beitt, gjarnan inngripum, til að skila vistkerfum til fyrra ástands og getu, eftir því sem frekast er kostur. Aðgerðirnar geta verið mismiklar eftir því hversu hnignað vistkerfið er. Með vistheimt er dregið úr rofi, tegundir lífvera eru endurheimtar og bætt úr starfsemi vistkerfanna s.s. hringrásum næringarefna (Ólafur Arnalds o.fl. 2015).
Vistheimt er bati vistkerfis sem hefur hnignað, skemmst eða eyðilagst
Vistkerfi á landi í lélegu ástandi hafa oft ófrjósaman jarðveg, lélega vatnsheldni og litla framleiðslugetu þar sem hringrás næringarefna og vatns- og orkuöflun til ljóstillífunar er skert. Þessi vistkerfi hafa oft tapað gróðurhulu sinni og því er yfirborðið óstöðugt og með miklu rofi. Í slíku landi eru aðgerðir vistheimtar til þess fallnar að koma af stað ferli sem kallast framvinda, en það er breyting á vistkerfi, yfirleitt frá lítt grónu til grónara vistkerfis, óháð árstíðum. Við framvindu verða breytingar á jarðvegi, plöntu-, dýra- og örverusamfélögum samhliða því sem virkni vistkerfisins eykst. Eftir því sem vistkerfi er verr farið tekur þetta ferli lengri tíma. Markmið vistheimtaraðgerðir er því að örva framvindu og auka stöðugleika vistkerfanna. Ýmsar aðferðir eru nýttar til þess, svo sem eyðing ágengra framandi tegunda þar sem þær er að finna, sáning eða gróðursetning, áburðargjöf og heyþakning svo fátt eitt sé nefnt.
Á síðustu öld tók votlendi hér á landi miklum breytingum vegna framræslu og ræktunar mýra sem hefur haft mikil áhrif á gróðurfar og dýralíf. Búsvæði lífvera í vatnsföllum hafa víða orðið fyrir röskun, m.a. vegna efnistöku og vatnstöku vegna framkvæmda og/ eða virkjana. Hægt er að endurheimta þannig röskuð vistkerfi með því að hætta efnisnámi í vatnsfarvegunum og rjúfa stíflur eða hækka vatnsstöðu í framræstu votlendi m.a. með uppfyllingu skurða. Slíkar aðgerðir hafa gefið góðan árangur.
Endurheimt vistkerfi verða sjaldan nákvæmar eftirlíkingar af fyrra ástandi enda eru vistkerfi síkvik vegna náttúrulegra ferla og breytinga á umhverfisaðstæðum. Vistheimtaraðgerðir taka að jafnaði langan tíma, hafi mikið rask orðið getur vistheimt tekið áratugi eða jafnvel aldir (Ólafur Arnalds o.fl. 2015).
Íslensk vistkerfi eru í ákaflega misjöfnu ástandi. Sums staðar er ástand gott en víða er landið verulega laskað, án þess að því sé veitt náin athygli. Einnig eru náttúruleg svæði á Íslandi þar sem gróður fær ekki þrifist sem kallast auðnir. Ástæða þess er oft sú að gos- virkni þar er mikil og á þetta við um sum svæði á hálendi Íslands. Mörgum finnst gróið land fallegra á að líta en ógróið land enda mikil lífsgæði fólgin í möguleikum til útivistar og náttúrufegurð á grónu landi, en náttúrulegar auðnir, sem búa yfir dulúð óbyggðanna, hafa einnig mikið aðdráttarafl í hugum margra.
Vistkerfi eru þó ekki bara falleg heldur eru þau líka bráðnauðsynleg. Stundum er talað um það sem vistkerfin gefa okkur sem vistkerfaþjónustu. Sem dæmi um slíkt er miðlun og hreinsun vatns, myndun jarðvegs, niðurbrot lífrænna leifa, endurnýjun næringarefna í jarðvegi, endurnýjun súrefnis og hreinsun andrúmsloftsins. Það er beint samband á milli ástands lands og vistkerfaþjónustu þess. Slæmt ástand leiðir af sér minni þjónustu en með því að bæta ástandið endurheimtum við fyrri vistkerfaþjónustu.
Þessi þjónusta er ekki öllum kunn og því ekki allir sem átta sig á mikilvægi heilbrigðra vistkerfa fyrir líf á Jörðinni. Það er því mikilvægt að byrja snemma að vinna að skilningi á mikilvægi þeirra, verndun og endurheimt. Endurheimt vistkerfa er brýn, ekki bara vegna ásýndar þeirra heldur vegna þeirrar nauðsynlegu þjónustu sem vistkerfi veita lífi hér á Jörðu (Ólafur Arnalds, 2015).