Innlendar tegundir

Innlendar tegundir

Stutta svarið

Allar tegundir lífvera eiga sér upprunaleg heimkynni þar sem þær þróuðust yfir langan tíma og eru þær kallaðar innlendar tegundir. Tófa og holtasóley eru dæmi um innlendar tegundir sem voru á Íslandi áður en maðurinn kom.

 

Lengra svar

Samspil lífvera innan vistkerfa er oft flókið og margbreytilegt og ef mikilvæg tegund tapast úr vistkerfi getur það verið mjög slæmt fyrir kerfið í heild. Býflugur eru t.d. mikilvægir frjóberar og án þeirra eiga sumar plöntur erfitt með að fjölga sér. Það sama á við ef ný tegund kemur inn í vistkerfi af mannavöldum. Fjöldi tegunda eykst jú tímabundið en sumar nýjar tegundir geta valdið því að aðrar tegundir hörfa eða jafnvel hverfa úr vistkerfinu.
Allar tegundir lífvera eiga sér upprunaleg heimkynni þar sem þær þróuðust yfir langan tíma. Þessar lífverur eru kallaðar innlendar tegundir. Innlend lífvera er sú sem er innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis og hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum hætti. Þegar lífvera er flutt af mannavöldum inn á nýtt svæði er hún kölluð framandi tegund og ef hún skaðar lífríkið sem þar er fyrir þá er hún orðin ágeng framandi tegund. Skaðinn getur verið samkeppni við aðrar tegundir um næringu og búsvæði og einnig
þegar nýja lífveran étur innlendar tegundir sem eru ekki vanar því að vera étnar.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is