Hvað fjalla ég um?

Umhverfismálin eru allt umlykjandi

Við val á umfjöllunarefni í verkefninu er ágætt að hafa í huga að allt má tengja við umhverfismálin. Í verkefninu sem þú skapar getur verið gott að tengja umhverfismálin við eitthvað sem þú hefur virkilegan áhuga á.

Hugsaðu um áhugamálin þín. Hvaða hluti þarftu til að stunda þau?

Hvernig kemstu á milli staða?

Hugsaðu um mataræðið. Hvað borðar þú á venjulegum degi? Hvaðan kemur maturinn sem þú borðar? Hvernig umbúðum kemur maturinn í? Hvað fer mikill matur í ruslið?

Hugsaðu um daglegt líf. Hvaðan koma hlutirnir sem þú notar daglega? Hvaða vörur notar þú mikið og hvað endast þær lengi? Hvaða raftæki átt þú? Hvað gerir maður við þau þegar þau bila? Hvernig hendir maður þeim?

Hugsaðu um pólitík. Hvað er verið að gera til að sporna gegn umhverfisáhrifum? Finnst þér það vera nóg? Hvað er verið að gera vel? Hvað mætti gera betur? Eru upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda skýrar og aðgengilegar ungu fólki?

Hugsaðu um heiminn. Hvað hefur verið að breytast í heiminum varðandi umhverfismál? Hverjar eru þínar fyrirmyndir í umhverfismálum og afhverju? Hverju eru ungmennin að mótmæla með loftslagsverkföllunum? Ertu sammála þeim eða ósammála? Afhverju?

Hugsum í lausnum

Hér eru nokkur dæmi um vandkvæði sem geta komið upp og lausnir við þeim.

Ég hef ekki reynslu af því að taka ljósmyndir, skrifa greinar eða búa til myndbönd. Aftast í Loftslagssmiðjunni Umhverfisfréttafólk má finna gagnlegar leiðbeiningar um akkúrat þetta.

Mér dettur ekkert umhverfismál í hug.
Tengingin við umhverfið er ekki alltaf augljós í fyrstu. Í rauninni má þó segja að allt líf okkar litist af umhverfismálum. Hver einasti hlutur sem við eigum er búinn til úr auðlindum heimsins, fötin sem við göngum í, maturinn, tölvurnar, símarnir, húsin, skólinn, bíllinn, eldsneytið og svo lengi mætti telja. Það er tilvalið að renna yfir hugtakalistann hér fyrir neðan til þess að fá hugmyndir að umfjöllunarefni, hann er þó ekki tæmandi.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is