Hvatning til kennara
Starf kennara er meðal mikilvægustu starfa þjóðfélagsins. Hlutverk kennara spannar vítt svið eins og kennslu, uppeldi, ráðgjöf og þróunarstarf. Menntun verður að laga sig að áskorunum hvers tíma til þess að gera kennurum kleift að mennta upplýsta einstaklinga sem búa yfir getu til aðgerða og hafa tæki og tól til að fást við áskoranir samtímans. Munum orð Nelsons Mandela um að „menntun er öflugasta vopnið sem við getum notað til að breyta heiminum“.
Til þess að mæta stórum og flóknum áskorunum samtímans á borð við loftslagsvána, tap á líffræðilegri fjölbreytni og því að framfylgja sjálfbærri þróun hefur menntun til sjálfbærni verið þróuð bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi. Allir kennarar eru lykilaðilar að því að raungera þessa mikilvægu þróun í daglegri kennslu.
Ljóst er að samfélög verða að fara í róttækar breytingar á skömmum tíma og samhliða þarf að mennta nýja kynslóð á þann hátt að hún verði í stakk búin til að finna nýjar leiðir, nýtt kerfi, nýja hugsun, nýjar stefnur og lausnir.
Kröfur til menntastofnana eru miklar. Það þarf að mennta nemendur í þverfaglegri, heildstæðri og gagnrýnni hugsun, auka hnattræna vitund og efla ekki einungis þekkingu heldur einnig ýmsa hæfni þeirra eins og getu til aðgerða. Kennarar hafa það hlutverk að veita nemendum stuðning í þekkingarleit sinni og nota til þess fjölbreyttar og nýstárlegar kennsluaðferðir. Mikilvægt er að miðla flóknum upplýsingum til nemenda á sem fjölbreyttastan hátt og finna aðgerðamöguleika nemenda við hæfi og aðstæður hvers og eins og gæta þess að nemendur fyllist ekki vonleysi og kvíða heldur blása í þau aðgerða- og baráttuvilja.
Menntun getur varla veitt okkur mikilvægara hlutverk en að styðja okkur á markvissan hátt í vegferð að betri heimi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Umbreyting samfélaga gerist skref fyrir skref og hvert skref skiptir máli.
Hvetjum og aðstoðum hvort annað í þessum skrefum og verum glöð og jákvæð yfir því að við höfum tækifæri og verkfæri til þess að taka þátt í góðum breytingum.
Heimurinn þarf svo sannarlega á öflugri menntun til sjálfbærni að halda.