Sjálfbærni krefst þess að hugsa út fyrir kassann

Guð­rún Schmidt, sér­fræð­ing­ur hjá Land­vernd, seg­ir það lofs­vert hvað með­vit­und um sjálf­bærni hef­ur auk­ist en mik­il­vægt sé að auka þekk­ingu fólks á því hvað sjálf­bærni þýð­ir í raun og koma í veg fyr­ir ranga notk­un á orð­inu og ýms­an græn­þvott.

Sjálfbærni


Orðið sjálfbærni er í tísku og eftirsóknarvert því það merkir eitthvað framsækið og gott. En orðið er notað á ýmsan og oft rangan hátt sem gerir það að verkum að það missir sína merkingu og verður „tómt“. Engar reglur eða viðmið eru til um hvenær er við hæfi að nota orðið sjálfbærni. Það er notað að vild í auglýsingum, fólk ruglar saman orðunum sjálfbærni og sjálfsþurftarbúskapur eða notar orðið í meiningunni „að geta útvegað sér eitthvað sjálft“.

Það er lofsvert hvað meðvitund um mikilvægi sjálfbærni hefur aukist. En nú er mikilvægt að auka þekkingu fólks á því hvað sjálfbærni þýðir í raun, m.a. með menntun til sjálfbærni svo hægt verði að koma í veg fyrir ranga notkun á orðinu og ýmsan grænþvott.

Sjálfbær þróun og heimsmarkmið

Alþjóðlega skilgreining á sjálfbærri þróun á vegum Sameinuðu þjóðanna er „þróun sem mætir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum“. Sjálfbærni merkir þá það ástand sem er ætlast til þess að ná með sjálfbærri þróun og þarf stöðugt að vinna að.

Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Horfa verður á þá staðreynd að auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og mynda þar með lokað kerfi sem samfélagið og efnahagslífið eru hluti af. Innan náttúrunnar hefur maðurinn skapað samfélagið og hagkerfið hefur maðurinn mótað innan samfélagsins. Það er því augljóst að hagkerfið verður að taka mið af þeim gildum sem móta gott samfélag og samfélagið þarf að laga sig að þeim reglum og þolmörkum sem náttúran hefur.

Sjálfbær þróun er framtíðarsýn hins alþjóðlega samfélags. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru síðan vörður á leiðinni þangað. Skoða þarf ávallt samhengi heimsmarkmiðanna, orsakir og afleiðingar, ekki bara innan hvers lands heldur einnig milli landa. Þannig höfum við í hinum vestræna heimi m.a. neikvæð áhrif á framgang heimsmarkmiða í öðrum löndum vegna ýmissa viðskipta- og lifnaðarhátta.

Hvar erum við stödd?

Einfalda svarið er að við erum langt frá því að stuðla að sjálfbærri þróun. Þegar við horfum á náttúruna þá vitum við að við lifum langt umfram þolmörk hennar með allt of stórt vistspor. Loftslagshamfarir, mengun og eyðilegging náttúru ógna framtíð lífvera á jörðinni. Ljóst er að við þurfum ekki eingöngu að hætta að ganga á náttúruna og vernda hana heldur þurfum við einnig að stuðla að endurheimt vistkerfa sem við höfum nú þegar skemmt.

Þegar við horfum á samfélagið þá hafa lífskjör batnað í mjög mörgum löndum. En því miður er beint samhengi milli bættra lífskjara og ágengni á auðlindir jarðar. Hluti af velgengni okkar í vestrænum samfélögum er síðan byggð á arðráni, bæði sögulega og nú. Ójöfnuður og óréttlæti hefur aukist. Ríkustu 10% íbúa heims eiga 76% af öllum efnahagslegum auðæfum en á móti eiga 50% þeirra fátækustu bara 2%. Stríð, smitsjúkdómar, vatnsskortur, hungursneyð, loftmengun, ójafnrétti og aukinn flóttamannastraumur lýsa m.a. slæmri stöðu innan samfélaga. Þegar horft er á hagkerfið sem er ríkjandi í dag þá er augljóst að það stuðlar ekki að sjálfbærri þróun. Áherslur á hagvöxt og línulegt hagkerfi hafa í för með sér ofnýtingu, mengun, eyðileggingu náttúrulegra auðlinda og sívaxandi losun gróðurhúsalofttegunda. Og í staðinn fyrir að stuðla að góðu lífi fyrir alla, stuðlar kerfið að eignasöfnun í fáeinar hendur.

Horft fram á við

Allt tal um að við getum stuðlað að sjálfbærri þróun innan núverandi kerfis sem hefur hingað til einungis stuðlað að ósjálfbærri þróun hjálpar okkur ekki neitt heldur hindrar okkur í að ráðast í mikilvægar breytingar. Hugmyndafræði um sjálfbæra þróun er ekki hægt að þröngva inn í núverandi kassa. Talið er að Albert Einstein hafi sagt að „ekki er hægt að leysa vandamál með sama hugsunarhætti og olli þeim.“

„Flöskuhálsinn er ekki unga kynslóðin heldur við, núverandi kynslóð fullorðinna.“

Við getum ekki haldið áfram að fara eftir gildum eins og efnishyggju, samkeppni og einstaklingshyggju sem eru því miður einkennandi í okkar vestrænu samfélögum og drifin áfram af núverandi hagkerfi. Við verðum að opna hugann fyrir nýrri hugsun sem fylgir gildum sjálfbærrar þróunar eins og nægjusemi, samvinnu, virðingu, þakklæti, kærleik, réttlætiskennd og samkennd. Við verðum að stíga út úr núverandi kassa, hugsa framtíðina upp á nýtt og byggja samfélög á kerfi sem virðir þolmörk náttúrunnar og stuðlar að góðu lífi fyrir alla jarðarbúa.

Menntun til sjálfbærni

Í skólum landsins, á öllum skólastigum, er í vaxandi mæli unnið eftir hugmyndafræði menntunar til sjálfbærni með það að markmiði að auka og efla gildi, hæfni og getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Verkefnið Skólar á grænni grein/Grænfáninn er þar fremst í röðinni sem tól til þess að stuðla að menntun til sjálfbærni enda er það viðurkennt af UNESCO sem helsta innleiðingartæki fyrir menntun til sjálfbærni í heiminum í dag. Mjög mikilvægt er að efla enn meira menntun til sjálfbærni.

Við höfum ekki tíma til að bíða eftir að næsta kynslóð framkvæmi þær breytingar sem þörf er á, heldur verðum við að fara í það núna. Flöskuhálsinn er ekki unga kynslóðin heldur við, núverandi kynslóð fullorðinna. Við verðum öll að mennta okkur til sjálfbærni til þess að skilja að við verðum að gera stórar kerfisbreytingar. Við þurfum að komast út úr þröngsýni og þægindaramma okkar, viðurkenna vandann og þora að breyta. Núna. Það er það sem við skuldum komandi kynslóðum.

Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd

Greinin birtist áður í Heimildinni Sjálfbærni krefst þess að hugsa út fyrir kassann – Heimildin

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is