Heilbrigði og velferð, sjálfbærni
1.Engin fátækt 2.Ekkert hungur 3.Heilsa og vellíðan 6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 8.Góð atvinna og hagvöxtur 10.Aukinn jöfnuður 12. Ábyrg neysla og framleiðsla
Lýðheilsa tekur til fjölmargra þátta sem allir miða að því að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu fólks með almenna vellíðan og langlífi að markmiði. Innan lýðheilsu rúmast þættir eins og hreyfing, næring, geðrækt, áfengis- og vímuvarnir, tóbaksvarnir og tannvernd. Í lýðheilsu felst því bæði heilsuvernd, þar sem markmiðið er að viðhalda sem bestri heilsu, og forvarnir til að koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma eða aðra áunna þætti sem fela í sér verri heilsu og minni lífsgæði (Velferðarráðuneytið, e.d.).
Lýðheilsa snýst um að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu
Öll viljum við lifa sem lengst og líða sem best ævina á enda. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á eigin heilsu og líðan og því er mikilvægt að tileinka sér lífsstíl snemma á lífsleiðinni sem leiðir til andlegrar og líkamlegrar vellíðunar og minnkar líkur á hvers kyns líkamlegum og andlegum kvillum.
Flestum okkur eru vel kunnug þau atriði sem nauðsynleg eru til að bæta og viðhalda góðri heilsu. Þetta eru atriði eins og að stunda reglulega og fjölbreytta hreyfingu, borða holla og fjölbreytta fæðu, eiga í jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum við fólk, fá nægan svefn og hvíld, stunda almennt hreinlæti og takmarka (eða sleppa alveg) neyslu ávana- bindandi efna, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir það hefur undanfarin ár orðið aukning í lífsstílstengdum sjúkdómum s.s. offitu og stoðkerfisvandamálum. Þetta á ekki síst við á Vesturlöndum þar sem lífskjörin eru að jafnaði með þeim bestu sem gerast í heiminum.
Regluleg hreyfing, Hollur matur, Samskipti við fólk, Nægur svefn og Hreinlæti
Áskorunin í átt að aukinni heilsu og vellíðan felst því frekar í framkvæmdinni og þurfa skólar að finna leiðir sem stuðla að því að allir einstaklingar skólans, bæði nemendur og starfsfólk, nái að lifa sem heilsusamlegustu lífi. Með því að byrja snemma að kynna nem- endum fyrir þeim jákvæðu þáttum sem heilbrigður lífsstíll hefur í för með sér aukast líkur á að þeim lífsstíl sé viðhaldið.
Sjálfbærni og lýðheilsa eru nátengd fyrirbæri en líkt og sjálfbærni tekur lýðheilsa til félags-, umhverfis- og efnahagsþátta sem tengjast velferð einstaklinga í samfélaginu. Þar sem sjálfbærni snýst um velferð og vellíðan allra Jarðarbúa má sjá að án virkrar lýðheilsu, þ.e. heilsuverndar og forvarna, er tæplega hægt að ná fram sjálfbærni.
Flest það sem er gott fyrir okkur er gott fyrir umhverfið
Því má bæta við að flest það sem er gott fyrir okkur sjálf er líka gott fyrir umhverfið. Hreyfing er góð fyrir líkamann en það er líka gott fyrir umhverfið ef við komum okkur gangandi og hjólandi á milli staða í stað þess að nota farartæki sem brenna jarðefnaelds- neyti. Að borða mat sem framleiddur er í nánasta umhverfi án eiturefna og ofgnóttar tilbúins áburðar er hollt fyrir okkur sjálf og gott fyrir umhverfið. Að minnka kjötneyslu er bæði gott fyrir heilsu okkar og umhverfið. Andleg vellíðan er grundvallaratriði góðrar heilsu okkar sjálfra en er einnig mikilvæg fyrir það umhverfi og samfélag sem við búum í, enda minni líkur á að við vinnum umhverfi og samfélagi spjöll ef við erum í góðu andlegu jafnvægi.