Search
Close this search box.

Vatn

Vatn

Grunnþættir aðalnámsskrár

Sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi og heilbrigði og velferð

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

3.Heilsa og vellíðan 6.Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 7.Sjálfbær orka 11. Sjálfbærar borgir og samfélög 12. Ábyrg neysla og framleiðsla 13. Aðgerðir í loftlagsmálum 14. Líf í vatni 15. Líf á landi 16. Friður og réttlæti

Vatn

Vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og er eitt af því sem skapar sérstöðu Jarðarinnar. 
Hvaðan kemur vatnið? Eigum við nóg af vatni í heiminum? En á Íslandi? Hvernig nýtum við vatnið? Hvernig spörum við vatnið? Þurfum við að spara vatnið á Íslandi?

Skilgreining

Vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og er eitt af því sem skapar sérstöðu Jarðarinnar. Um ¾ hlutar Jarðarinnar eru þaktir vatni og eru lífverur að stórum hluta úr vatni, t.d. erum við manneskjur um 67% vatn. Vatnið á Jörðinni er takmörkuð auðlind að því leyti að það endurnýjast ekki heldur er það í stöðugri hringrás sem drifin er áfram af sólinni.

Um 3/4 hlutar Jarðarinnar eru þaktir vatni

Hvernig er hringrás vatns?

Hringrás vatns má lýsa með þeim hætti að vatn gufar upp fyrir tilstilli sólarinnar, þéttist ofar í gufuhvolfinu og verður að skýjum. Vatnsgufan þéttist svo enn frekar og verður að dropum eða ískristöllum sem falla til jarðar sem regn eða snjór. Hluti vatnsins á jörðu niðri er nýttur af plöntum og dýrum, annar hluti fer í ár, vötn og höf. Vatnið smýgur einnig niður um glufur í jarðskorpunni og verður að grunnvatni. Grunnvatn er meðal annars nýtt sem neysluvatn. Á myndinni er hringrás vatns útskýrð.

Hverjar eru vatnsbirgðir heimsins?

Þó vatn sé takmörkuð auðlind er það til í svo gríðarlegu magni að ekki þarf að óttast vatnsskort. Eða hvað? Vandamálið er að vatnið er að langmestum hluta saltvatn eða um 97% af því vatni sem til er í heiminum. Það eru því aðeins um 3% af vatnsbirgðum heimsins ferskvatn og af þeim eru aðeins um 30% aðgengileg til notkunar ýmist sem grunnvatn eða yfirborðsvatn, restin er að mestu leyti bundin í jöklum. Því má segja að ferskvatn sé í takmörkuðu magni og er því mjög misskipt á milli landssvæða (UN water, 2016).

Aðeins 3% af vatnsbirgðum heimsins er ferskvatn og er því mjög misskipt á milli svæða jarðar.

Í hvað notum við vatnið?

Vatnsnotkun í heiminum hefur aukist jafnt og þétt með aukinni framleiðslu og auknum mannfjölda. Vatn er, líkt og orka, ein af meginforsendum nútímalifnaðarhátta og er gríðarlegt magn vatns notað daglega til að viðhalda framleiðslu og neyslu Jarðarbúa. Landbúnaður er sú atvinnugrein sem nýtir langmest af neysluvatninu, eða um 70%. Iðnaður kemur þar á eftir og nýtir um 20% neysluvatnsins en aðeins um 10% er nýtt til heimilishalds (UN water, 2016).

Um 70% af neysluvatni heimsins er nýtt í landbúnaði!

Hvernig er ástand neysluvatns í heiminum?

Vegna gífurlegrar eftirspurnar eftir vatni í landbúnaði og iðnaði er í mörgum löndum gengið mjög nærri grunnvatnsbirgðum auk þess sem mengun grunnvatnsins er víða raunverulegt vandamál. Ferskvatn er því víða af skornum skammti og er ýmsum aðferðum beitt til að hreinsa vatnið svo hægt sé að neyta þess. Sums staðar eru vatnshreinsistöðvar notaðar til að hreinsa skólp og koma því aftur í umferð, annars staðar er sjór afsaltaður ýmist með eimingu eða öfugri osmósu en þessar aðferðir eru dýrar og krefjast mikillar orku. Á sumum stöðum er mestallt drykkjarvatn hreinlega flutt á flöskum til neytenda. Víða er reynt að finna aðrar aðferðir til að nýta vatnið sem best. Til dæmis er svokölluðu gráu vatni veitt á salerni í auknu mæli, en það er vatn sem nýtt hefur verið, t.d. í handþvott eða sturtu. Reynt er við byggingu á nýjum húsum að hanna affallskerfið með tilliti til þessa. Á flestum stöðum er hreinu vatni þó enn veitt á salerni en um 15 lítrum af vatni er sturtað niður í hvert skipti!

Við notum 15 lítra af vatni í hvert sinn sem við sturtum niður! Víða er skólp hreinsað og gert neysluhæft

Hvað með vatnið á Íslandi?

Ástand vatns á Íslandi er almennt talið mjög gott og er landið afar auðugt af vatni. Megnið af neysluvatninu á Íslandi kemur frá grunnvatni, eða um 93%, restin kemur frá yfirborðsvatni. Grunnvatnið er nýtt sem neysluvatn ómeðhöndlað en hins vegar þarf í einstaka tilvikum að meðhöndla yfirborðsvatnið með útfjólubláum geislum til að drepa bakteríur og gera það neysluhæft (MAST, 2015). Á Íslandi erum við því svo heppin að eiga ógrynni af hreinu neysluvatni. Sé miðað við höfðatölu er vatnsmagnið á mann með því allra mesta sem gerist í heiminum. Aftur á móti er notkun vatns hér á landi að sama skapi með því mesta sem gerist í heiminum, miðað við höfðatölu er notkunin um 225 þúsund lítrar á mann á ári sem gerir um 616 lítra á dag! Til samanburðar notar hver Dani að meðaltali um 116 lítra af vatni á dag (Evrópusambandið, 2015).

Vatnsnotkun á Íslandi er rúmir 600 lítrar á mann á dag sem er með því mesta sem gerist í heiminum!

Af hverju er mikilvægt að vinna með þemað vatn?

Flest tökum við vatni sem sjálfsögðum hlut og veltum lítið fyrir okkur þeim lífsgæðunum sem felast í því að skrúfa frá krana og fá sér sopa af hreinu, ísköldu vatni. Á sama tíma er fólk annars staðar í heiminum sem þarf að ganga langar leiðir til að sækja vatn til heimilisins, sem jafnvel er ekki hreint. Það er því afar brýnt að vinna með vatn og gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að fara vel með vatnsauðlindina.

 

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is