Lífverur heimsins eru afar ólíkar en þær eiga eitt sameiginlegt og það er að þær eiga sér sitt eigið búsvæði eða heimili þar sem þær finna skjól og fæðu við hæfi og koma afkvæmum sínum á legg. Búsvæði lífvera geta verið misstór, allt frá því að vera lítil trjágrein (t.d. ýmis smádýr og sveppir) og upp í stór svæði sem jafnvel ná yfir ólík vistkerfi (t.d. tófan, haförninn og hnúfubakur).
Sum dýr hafa þróast á þann hátt að þau éta mjög sérhæfða fæðu, eins og lirfa birkifetans sem lifir fyrst og fremst á birki og bláberjalyngi og steypireyður sem lifir svo til eingöngu á ljósátu sem er dýrasvif. Önnur dýr, eins og tófan og hrafninn eru alætur og geta étið nánast allt. Svona mismunandi fæðuþarfir hafa mikil áhrif á hvar dýrin búa og hversu stór búsvæði þeirra eru. Plöntur geta líka átt sér misstór búsvæði. Sumar plöntutegundir eru mjög sérhæfðar og geta bara vaxið við sérstakar umhverfisaðstæður, til dæmis jarðhitategundin naðurtunga. Aðrar tegundir geta hins vegar þrifist næstum hvar sem er, jafnvel í möl þar sem næstum enga næringu er að finna (t.d. túnfífill).
Tap á búsvæðum er þegar maðurinn minnkar eða eyðileggur búsvæði lífvera. Tap á búsvæðum stuðlar að eyðileggingu á vistkerfum og er ein af fimm helstu ógnum í heiminum við lífbreytileika.
Áhrif mannsins á lífheiminn eru nú orðin svo mikil að búsvæði langflestra villtra lífvera hafa orðið fyrir manngerðum áhrifum og jafnvel eyðst að einhverju leyti. Tap á búsvæðum stuðlar að eyðileggingu á vistkerfum og er ein af fimm helstu ógnum við lífbreytileika í heiminum. Ástæðurnar fyrir þessu tapi eru margar, m.a. ósjálfbær landnýting og landbúnaður, mengun, námugröftur og mannvirkjagerð (vegir, hús og fleira).
Á Íslandi hefur orðið mikið tap á búsvæðum m.a. vegna mikillar gróður- og jarðvegseyðingu og mannvirkjagerð. Ef sjórinn er skoðaður þá er staðan einnig slæm við Ísland því ósjálfbærar fiskveiðar voru stundaðar hér áður fyrr og veiðiaðferðirnar voru þannig að vistkerfin á sjávarbotninum hnignuðu.
Sjá einnig: lífbreytileiki, búsvæði, vistkerfi, gróður- og jarðvegseyðing