COP ráðstefnur eru árlegar ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna í tengslum við ýmsa alþjóðlega samninga. Þær COP ráðstefnur sem fá mesta umfjöllun í fjölmiðlum eru ráðstefnur Loftslagssamningsins og ráðstefnur samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
COP28 Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Dubai árið 2023 og þar náðist sögulegt samkomulag þar sem loksins var minnst á jarðefnaeldsneyti. Parísarsamkomulagið (eða Parísarsáttmálinn) var samþykkt árið 2015 á COP21 Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og þá sendi Ísland líkt og önnur aðildarríki Loftslagssamningsins inn svokallað landsmarkmið um samdrátt í losun til ársins 2030. Ísland tilkynnti að það myndi taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 miðað við árið 1990. Í byrjun árs 2021 uppfærði Ísland landsframlagið sitt og mun taka þátt í nýju markmiði ESB um 55% samdrátt í losun í stað 40% áður.
COP15 ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni var haldin í Montreal árið 2022. Ráðstefnunni hafði verið frestað vegna COVID-19 og flutt frá Kunming í Kína til Montreal í Kanada. Kunming-Montréal rammasamningurinn var samþykktur á þessari sögulegu ráðstefnu. Samningurinn er mjög metnaðarfullur og snýst um að vernda og endurheimta vistkerfi, vernda líffræðilega fjölbreytni (sérstaklega útdauða tegunda og viðhalda erfðafræðilegri fjölbreytni) og stuðla að sjálfbærri nýtingu lífvera á sanngjarnan hátt.
Sjá einnig: Alþjóðlegt samstarf