Gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt fyrirbæri í lofthjúpi Jarðar sem heldur henni mátulega hlýrri. Án gróðurhúsaáhrifanna væri Jörðin of köld til að við gætum lifað hér. Aukin gróðurhúsaáhrif valda hins vegar því að Jörðin hlýnar og því fylgja loftslagsbreytingar sem eru mjög slæmar fyrir lífríkið og okkur mannfólkið.
Umhverfis Jörðina er þunnur lofthjúpur sem virkar eins og skjöldur gegn loftsteinum og öðrum hættum. Sólin sendir frá sér geisla sem lenda sumir á yfirborði Jarðar. Hluti geislanna endar sem varmi í lofthjúpinum en aðrir geislar sleppa aftur út í geim. Lofthjúpurinn virkar svolítið eins og gler í gróðurhúsi og þess vegna kallast þetta gróðurhúsaáhrif. Þannig helst hiti á Jörðinni, svolítið eins og hún væri í lopapeysu. Gróðurhúsaáhrifin eru náttúrulegt fyrirbæri sem heldur meðalhita á Jörðinni um 15°C. Án lofthjúpsins og gróðurhúsaáhrifa væri Jörðin of köld til að maðurinn og aðrar lífverur gætu lifað hér.
Þegar gróðurhúsaáhrif eru aukin, þ.e. þegar meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið, sleppur minni varmi út um lofthjúpinn og út í geim. Varminn helst því innan lofthjúpsins með þeim afleiðingum að Jörðin hlýnar. Núna er eins og Jörðin sé komin í tvær lopapeysur og er allt of heitt! Þessi aukning er nú þegar farin að hafa í för með sér alvarlegar breytingar á Jörðinni okkar. Það er óhætt að segja að þær loftslagshamfarir, sem eiga sér nú stað vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, sé ein mesta áskorun sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Þegar koltvíoxíð og aðrar gróðurhúsalofttegundir eykst með þessum hætti í andrúmsloftinu þá veldur það alvarlegum breytingum á loftslaginu. Það skýrir af hverju koltvíoxíð er oft talið slæmt, þrátt fyrir að það sé nauðsynlegt, bara í mátulegu magni.
Handbók um menntun til sjálfbærni bls. 138
Sjá einnig: Gróðurhúsalofttegundir, loftslagsbreytingar, tap á lífbreytileika