Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóða (SÞ) eru 17 talsins og eiga að leiða okkur áfram í átt að sjálfbærri þróun. Öll aðildarríkin SÞ, þar með talið Ísland, hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu heimsmarkmiða bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Stefnumörkun alþjóðlega samfélagsins um sjálfbæra þróun hefur þróast áfram allt frá því að hugtakið var skilgreint á heimsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna árið 1992 í Ríó de Janeiro. Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun mynda í dag þá vegferð í átt að sjálfbærri þróun sem ríki heims eiga að hafa að leiðarljósi. Þau eru í gildi frá 2016 til 2030. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmiðum. Þau tengjast öll innbyrðis, eru samþætt og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: náttúrunnar, samfélags og hagkerfis. Heimsmarkmiðunum er m.a. ætlað að bæta til muna líf og umhverfi allra jarðarbúa á gildistíma þeirra. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, Jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Áhersla er jafnframt lögð á það að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Vinnan að heimsmarkmiðunum krefjast aðkomu allra hvort sem það eru stjórnvöld, sveitarfélög, atvinnulífið, stofnanir eða einstaklingar. Markmiðin veita aðhald og leiðarljós og eru afgerandi skref til að leiða heimsbyggðina á braut sjálfbærrar þróunar. Öll aðildarríkin SÞ, þar með talið Ísland, hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu heimsmarkmiða bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Handbók um menntun til sjálfbærni bls. 108
Sjá einnig: Alþjóðlegt samstarf