Náttúruvernd er sú stefna að vilja vernda náttúruna fyrir óæskilegum áhrifum af athöfnum mannsins. Náttúruvernd snýst um verndun vistkerfa, lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað. Náttúruvernd og það að vernda heilu vistkerfin er m.a. besta leiðin til að varðveita lífbreytileika, bjarga lífverum sem eru í hættu og tryggja okkur lífsgrundvöll. Ýmsum aðferðum má beita við náttúruvernd eins og friðlýsing land- og hafsvæða. Með því móti má vernda búsvæði lífvera eða sérstæðar jarðmyndanir, landslag eða víðerni.
Alþjóðlegi Kunming-Montreal samningurinn um líffræðilega fjölbreytni frá lok árs 2022 kveður m.a.á um að vernda þarf 30% af náttúru á landi, strandsvæðum og hafsvæðum fyrir 2030.
Mannkynið er hluti af náttúrunni og á allt sitt undir náttúrunni og er háð henni um fæðu og búsvæði, vatn og loft. Því er náttúruvernd í grunninn nauðsynleg öllu lífi. Í umræðu um náttúruvernd er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að náttúran sem slík hefur ákveðið gildi, hún er ekki eingöngu til staðar svo við mannkynið getum nýtt hana heldur hefur hún einnig tilvistarrétt í sjálfri sér. Náttúran getur ekki talað fyrir sig sjálf, hún getur ekki sagt skoðun sína eða látið reyna á ákvarðanir fyrir dómstólum. Það er því mikilvægt að hún eigi sér málsvara þegar kemur að nýtingu auðlinda og röskun landssvæða, eins og t.d. náttúruverndarsamtök. Enn mikilvægara er að við mannkynið sammælumst um að umgangast hana af virðingu og hófsemi og tökum skynsamlegar ákvarðanir í nýtingu auðlinda með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi.
Ísland er ríkt af fallegri náttúru sem flestum þykir vænt um og náttúran er einnig það sem flest erlent ferðafólk kemur til að skoða. Hvergi í heiminum er viðlíka fjölbreytni í jarðmyndunum sem mótast hafa af samspili elds og íss og á Íslandi. Við búum yfir tiltölulega hreinu lofti og vatni og á hálendinu er að finna víðerni sem eru óbyggð og að stórum hluta ósnortin af beinum athöfnum manna. Þó Ísland sé ekki tegundaauðugt land í samanburði við sambærileg svæði á öðrum breiddargráðum eða svæði sunnar á Jarðarkringlunni er tegundasamsetning sumra lífveruhópa hér einstök og hefur hún þróast í takt við náttúruöflin í árþúsundir. Íslensk náttúra er að sama skapi viðkvæm eins og alvarleg og langvarandi gróður- og jarðvegseyðing á landinu sannar. Gróður og jarðvegshula sem einu sinni er horfin jafnar sig seint. Dagur íslenskrar náttúru er 16. september, á fæðingardegi Ómars Ragnarssonar, en hann hefur barist ötullega fyrir hönd íslenskrar náttúru.
Náttúran á Íslandi er eins og víða í heiminum á ýmsum stöðum í hættu vegna ofnýtingar, mengunar, framkvæmda, ferðamennsku og orkuframleiðslu. Sjálfbær nýting á náttúru er forsenda fyrir lífið okkar en það þarf líka að hafa í huga að villt náttúra geymir mikið verðmæti sem ber að vernda. Í sumum tilfellum hafa deilur staðið yfir árum og stundum áratugum saman um vernd eða nýtingu einstakra svæða. Varðandi orkuframleiðslu er búið að þróa kerfi, svokölluð Rammaáætlun, þar sem leitað er málamiðlunar milli verndar, annarrar nýtingar náttúrugæða og orkuframkvæmda.
Það er líka hægt að láta sér þykja vænt um náttúrusvæði sem maður hefur ekki séð. Amazon regnskógarnir eru gríðarlega mikilvægt vistkerfi fyrir Jörðina og það er hægt að elska þá og virða þó maður hafi ekki verið svo heppinn að fara þangað. Það er líka hægt að vera þakklátur fyrir lífverur eins og t.d. ánamaðka, sem eru mikilvægir fyrir frjósemi jarðvegs eða býflugur sem frjóvga m.a. ávaxtatré. Það að vernda þessar lífverur og þau vistkerfi sem þau lifa náttúrulega í er mikilvægt fyrir m.a. matarframleiðslu í heiminum. Allar tegundir eru mikilvægar, meira að segja mýflugur sem eru stundum pirrandi fyrir okkur mannfólkið en eru mikilvæg fæða fyrir aðrar lífverur, t.d. önnur skordýr, fugla og fiska. Lífríki Mývatns er þannig einstakt á heimsvísu vegna mýflugnanna.
Sjá einnig: náttúrutenging, lífbreytileiki, Rammaáætlun