Search
Close this search box.

Úrgangur

Úrgangur

Stutta svarið

Hráefni eða auðlind á villigötum.

Lengra svar

Skilgreina má úrgang sem aukaafurð sem fellur til við neyslu eða framleiðslu vöru. Þó mörgum finnist úrgangur vera óæskileg aukaafurð þá er réttara að líta á hann sem hráefni á villigötum, eða jafnvel auðlind, enda hafa eiginleikar hráefnisins ekkert breyst þó það kallist úrgangur. Timbur sem hefur verið hent hefur í flestum tilvikum alveg sömu eiginleika og áður en því var hent og það sama má segja um plast og pappír sem endar í ruslinu. Það er fyrst og fremst viðhorfið til vörunnar sem hefur breyst þegar hún er komin í ruslið. Þetta á einnig við um mat sem endar í ruslinu en í mörgum tilvikum er mat hent sem er fullkomlega í lagi. Samkvæmt forrannsókn sem Landvernd lét gera á matarsóun Reykvíkinga er um 5.800 tonnum af vel ætum mat hent í ruslið á hverju ári í Reykjavík. Þetta gera tæp 50 kg á hvern Reykvíking á ári (Andrea M. Burgherr o.fl., 2015). Í heiminum öllum fara á ári hverju um 1300 milljónir tonna af fullkomlega ætum mat í ruslið (FAO, 2013).

Skýringin er fyrst og fremst nútímalifnaðarhættir sem einkennast af mikilli og oft óhóflegri neyslu. Fylgifiskur neyslunnar er gríðarlegt magn úrgangs. Eins og staðan er í dag eykst magn úrgangs í réttu hlutfalli við hagvöxt en neysla er ein forsenda hagvaxtar í nútímahagkerfi. Árið 1995 var heildarmagn úrgangs hér á landi tæp 400.000 tonn en árið 2014 var heildarmagnið komið upp í 800.000 tonn! Úrgangurinn tvöfaldaðist því á tæpum 20 árum (Hagstofa Íslands, 2016).

 

Úrgangur er eins stærsta umhverfisáskorun heimsins, en hvaðan kemur allur þessi úrgangur?

Úrgangur er ein stærsta umhverfisáskorun sem mannkyn stendur frammi fyrir í dag og leita þjóðir heims lausna í þessum efnum. Stefna Evrópusambandsins er að rjúfa tengslin á milli hagvaxtar og úrgangs þannig að hagvöxtur geti aukist án þess að úrgangur aukist að sama skapi. Í því samhengi er að sjálfsögðu best að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Þann úrgang sem óhjákvæmilega myndast ber jafnframt að líta á sem auðlind og breyta þannig viðhorfinu til hans (Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, 2013).

Hvað verður um allan þennan úrgang? 

Á vef Hagstofu Íslands (e.d.) kemur fram að árið 2014 fór um helmingur heimilisúrgangs á Íslandi í urðun, um 10% voru brennd og um 40% fóru í endurvinnslu. Stór hluti úrgangs endar þó úti í náttúrunni og er því ekki inni í þessum tölum. Sem dæmi má nefna að mörg þúsund tonn af rusli enda í Norðursjó á hverju ári og er plast þar eitt stærsta vandamálið. Það er raun ekki vitað með vissu hvort plast brotni til fulls niður í náttúrunni og ef það gerist getur það tekið mörg þúsund ár! Því hefur ekkert af því plasti sem framleitt hefur verið í heiminum náð að brotna niður til fulls. Plastið molnar í örsmáar plastagnir sem valda ekki síður skaða fyrir umhverfið en stærri plasteiningar. Plastagnirnar enda í lífverum, hlaðast upp ofar í fæðukeðjunni og geta haft alvarlegar afleiðingar á heilsu manna og dýra.

Sjá einnig: Hringrásarhagkerfiðmengun

Úrgangur, rusl

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is