Vistkerfi er hugtak yfir náttúruna sem nær yfir allar lífverur (t.d. bakteríur, orma, spendýr, sveppi, plöntur, köngulær og fugla) og alla umhverfisþætti (t.d. loftslag, vatn og næringarefni) sem finnast á tilteknu svæði. Þessi svæði geta verið margskonar að stærð og lögun sem fer eftir samspili lífvera og umhverfis þeirra. Vistkerfi geta t.d. verið birkiskógur, votlendi, mói, tjörn eða fjara.
Vistkerfi geta verið margskonar. Oft eru þau nefnd eftir áberandi tegund eða ríkjandi tegundum sem mynda samfélög lífvera á staðnum (birkiskógur) eða gerð búsvæða (votlendi, mói, skóglendi eða fjara). Vistkerfi eru fjölbreytt, t.d. hefur lífríki á jarðhitasvæðum aðlagast hita og lífríki á jöklum og heimskautum hefur aðlagast ís og kulda (eins og t.d. tófan). Samspil lífvera innan vistkerfa er oft flókið og margbreytilegt og sé mikilvægur hlekkur tekinn út, eins og t.d. býfluga, getur það verið mjög slæmt fyrir kerfið í heild því býflugur m.a. eru mikilvægir frjóberar og án þeirra eiga sumar plöntur erfitt með að fjölga sér. Það sama á við ef ný tegund kemur inn í vistkerfi. Fjöldi tegunda eykst jú tímabundið en sumar nýjar tegundir geta orðið ágengar og valdið því að aðrar tegundir hverfi úr vistkerfinu. Dæmi um ágengar tegundir á Íslandi eru t.d. minkur og alaskalúpína.
Vistkerfi í góðu ástandi veita okkur ákveðin gæði sem kalla má þjónustu. Þessa þjónustu vistkerfa er að finna bæði á landi og í sjó og er til dæmis náttúruafurðir eins og fæða, hreint loft, vatn og timbur. Vistkerfi í góðu ástandi eru lífsnauðsynleg fyrir okkur mennina. Talað er um að vistkerfin veiti okkur þjónustu en auðvitað eru vistkerfin ekki bara nauðsynleg fyrir okkur heldur allar lífverur. Þessi þjónusta vistkerfa nær til dæmis yfir náttúruafurðir eins og fæðu, hreint loft, vatn og timbur. Þjónusta vistkerfa nær einnig yfir það þegar plöntur, sem eru t.d. mikilvæg fæða menn og dýr, mynda fræ og fjölga sér. Þegar þið farið út í náttúruna til að læra um hana eða njóta útiveru eruð þið líka að njóta þjónustu hennar.
Votlendi er dæmi um vistkerfi sem veita þá þjónustu að binda kolefni og draga úr hættu á flóðum. Því er mjög mikilvægt að vernda (náttúruvernd) og endurheimta votlendi.
Stundum sést þjónusta vistkerfa ekki almennilega fyrr en hún er horfin. Öll þessi þjónusta vistkerfa skiptir miklu máli fyrir okkur og allar lífverur. Ef ekki er farið vel með náttúruna þá minnkar eða tapast geta vistkerfanna til að veita okkur m.a. mat og hreint vatn.
Vistkerfisnálgun (ecosystem approach) er nýlegt hugtak sem snýst um sjálfbæra umgengni mannsins við auðlindir Jarðar. Vistkerfisnálgun stuðlar að jafnvægi milli verndunar vistkerfa og sjálfbærri nýtingu þeirra. Þannig þurfum við að vernda náttúruleg vistkerfi sem enn mega teljast heilleg, nýta auðlindir með sjálfbærum hætti og endurheimta þau vistkerfi sem hafa hnignað.
Hin alþjóðlega skilgreining á vistkerfisnálgun er: „Vistkerfisnálgun er þegar stjórnun á notkun lands, lagar og lifandi auðlinda er samræmd og hvetur til verndunar og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi. Þess vegna styður beiting vistkerfisnálgunar við öll þrjú meginmarkmið aðildarþjóðanna: verndun líffræðilegrar fjölbreytni; sjálfbæra nýtingu og sanngirni og jafnræði við nýtingu erfðaauðlinda.“
Sjá einnig: lífbreytileiki, auðlindir, ofnýting auðlinda