Search
Close this search box.

Menntun til sjálfbærni og heimsmarkmiðin

Menntun til sjálfbærni og heimsmarkmiðin

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa hvatt þjóðir heims til að flétta menntun til sjálfbærni inn í námskrá menntastofnana. Árin 2005 til 2014 voru tilgreind sem „ Áratugur menntunar til sjálfbærni“ hjá SÞ og hefur mikil þróun átt sér stað í þessum málum. Vinnan hefur síðan haldið áfram m.a. í gegnum heimsdagskrá í menntun til sjálfbærni á vegum SÞ á árunum 2015 til 2019. Eftir það fylgdi nýr rammi vinnunni áfram sem nefnist menntun til sjálfbærni fyrir2030 (Education for Sustainable Development for 2030). Það er UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) sem heldur utan um og stjórnar þróuninni við menntun til sjálfbærni á alþjóðlegum vettvangi.

Horft er á menntun sem grundvallarforsendu til þess að stuðla að heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun. Menntakerfið gegnir því alþjóðlega viðurkenndu lykilhlutverki í að stuðla að umbreytingu samfélaga í átt að sjálfbærri þróun.

Í fjórða markmiði heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun er menntun til sjálfbærni tiltekin á mjög skýran hátt, sérstaklega í undirmarkmiði 4.7.: menntun til sjálfbærni er lögð áhersla á að nálgast viðfangsefnin á heildstæðan hátt og af þverfaglegri víðsýni. Til viðfangsefna tilheyra allar stoðir sjálfbærrar þróunar hvort sem er náttúra, samfélag eða hagkerfi. Þannig má segja að öll viðfangsefni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna eigi erindi í menntun til sjálfbærni og ekki síst samhengið á milli allra heimsmarkmiðanna.

Mikil áhersla er lögð á hnattræna vitund og að réttlæti innan og milli kynslóða sé alltaf haft að leiðarljósi.

Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.

Fræðast meira

Í kafla 2.3 í handbókinni Menntun til sjálfbærni er fjallað ítarlega um tengingu menntunar til sjáfbærni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hugtök

Við vinnum með ýmis hugtök í grænfánavinnunni, sem tengjast loftslagsmálum og náttúruvernd. Hugtök eru útskýrð með stutta svarinu og langa svarinu.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is