Lýðheilsa
Lýðheilsa snýst um að bæta og viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu. Hugtakið nær yfir heilsuvernd sem og forvarnir og rúmar þætti eins og hreyfingu, næringu, geðrækt, áfengis- og vímuvarnir, tóbaksvarnir og tannvernd.
Heilsubót fyrir okkur og umhverfið
Umhverfisvænn lífsstíll rímar vel inn í lýðheilsumarkmið enda er það sem bætir umhverfið oft líka gott fyrir okkur.
Sem dæmi þá bætir það heilsu okkar að hjóla eða ganga í vinnuna frekar en að keyra og er einnig gott fyrir umhverfið. Það sama má segja um mataræði – að borða meira grænmeti og minna kjöt er gott fyrir okkur og líka betra fyrir umhverfið. Vatn úr krananum er það besta sem við drekkum (allavega á Íslandi) en þar komumst við líka hjá mikilli auðlindanotkun sem færi í umbúðir, ræktun á frekari matvælum og mengun við flutning.
Kostir útivistar eru vel rannsakaðir
Að stunda hreyfingu úti við hefur margvísleg jákvæð áhrif og náttúran nýtur þess einnig að við lærum að meta hana og sjáum virðið í að vernda hana. Fjölmargar ritrýndar rannsóknir sanna þessi jákvæðu tengsl milli heilsu fólks og veru í náttúru. Hvort sem um er að ræða gönguferðir við sjó, hlaupatúra upp á fjöll eða einfaldlega samveru með vinum úti við. Dvöl í náttúru minnkar streitu, kvíða og þunglyndi og bætir skap. Þá dregur hún úr áhættu á lífsstílstengdum sjúkdómum og getur styrkt ónæmiskerfið. Auk þess hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif á einbeitingu og vitsmunalega virkni, sér í lagi hjá börnum og eldra fólki.
Græn svæði bæta lífsgæði
Það að gera náttúru aðgengilega öllum, vernda villta náttúru, fjölga grænum svæðum og hvetja fólk til virkrar útivistar og tengsla við umhverfið er því gríðarlega mikilvægt skref í því að efla heilsu samfélagsins okkar í heild sinni. Fólk sem býr nálægt grænum svæðum býr yfir betri heilsu, jafnvel þó tekið sé tillit til tekna og annarra félagslegra þátta.
Tengsl umhverfisverndar og heilsueflingar
Auk þess að njóta náttúrunnar þá vitum við líka að þátttaka umhverfisvernd eða sameiginlegum verkefnum á grænum svæðum getur aukið félagslega samheldni og velferð samfélaga. Slík virkni stuðlar að betri tengingu við náttúruna auk þess að styrkja sjálfsmynd og veita tilfinningar eins og að tilheyra og að fólk finnist það hafa tilgang. Þessi tengsl milli umhverfisverndar og heilsueflingar eru sífellt meira viðurkennd í stefnumótun lýðheilsu yfirvalda víða um heim.
Fólk sem er tengt náttúrunni sýnir jafnframt frekar vistvæna hegðun, sem styrkir í framhaldi bæði lýðheilsu og náttúruvernd.
Það er því mikilvægt fyrir okkur að vera meðvituð um það að náttúran okkar er ekki einungis auðlind til nýtingar eða úrræði til afþreyingar heldur grundvallarþáttur í heilsu og vellíðan. Því ættum við að líta á náttúruna sem hluta af heilbrigðiskerfinu – forvörn, meðferð og endurhæfingu allt í senn.