Fjölbrautarskóli Suðurlands
Axel Sturla Grétarsson, Konráð Ingi Finnbogasson og Sunna Hlín Borgþórsdóttir
Umsögn dómnefndar
Bókin og sagan er ádeila á hvalveiðar og ákall um að þeim sé hætt. Sagan af Kára hval er í senn falleg og sorgleg, vekur okkur til umhugsunar um hvali sem vitiborin dýr sem eiga fjölskyldu, sögu og eigið líf sem mannfólkið þarf að virða og bera gæfu til að vernda. Textinn og myndirnar senda skýr skilaboð sem eiga erindi við samtímann og lesendur á ýmsum aldri.
Lesa bók
Menntaskólinn á Akureyri
Hanna Lilja Arnarsdóttir, Heiða María Arnarsdóttir og Steinunn Sóllilja Dagsdóttir
Umsögn dómnefndar
Tímaritið er metnaðarfullt, mjög vel unnið og hönnunin flæðir fallega. Spennandi að taka heimsmarkmiðin fyrir á þennan máta og kafa ofan í efnið. Höfundar hafa lagst í rannsóknarvinnu og draga upp fjölbreytta mynd af umhverfismálum. Það verður spennandi að fylgjast með næstu tölublöðum og eru höfundar hvattar til að halda áfram á þessari braut.
Tækniskólinn
Baldur Björn Burknason, Björn Jóel Þorgeirsson, Guðmundur Steinar Árnason, Kristófer Víkingur Guðmundsson og Theodór Andri Gíslason.
Umsögn dómnefndar
Útlit kolefnisklukkunnar er grípandi. Þetta er einföld en sterk hugmynd, eins konar gjörningur í almannarými sem er til þess fallinn að hafa áhrif á fólk og vekja það til umhugsunar í sínu daglega lífi. Framsetningin er skýr og augljóst að teymið hefur lagt vinnu í hugmyndina, forritunina og handverkið. Það væri spennandi að sjá klukkuna uppfærða reglulega þannig að henni yrði seinkað ef mannkyni lánast að draga úr losun en flýtt ef of lítill árangur næst.
Vapeland
Fjölbrautarskóli Vesturlands
Víðir Þór Vignisson
Vapeland er falleg og frumleg framsetning á mjög mikilvægum boðskap. Að nota ljósaperu til að vekja fólk til umhugsunar er skemmtileg nálgun – að fá fólk til að kveikja á perunni. Okkur þykir mikilvægt að boðskapurinn sé „Kveikið á perunni og hættið þessu rugli“ því viss vape-faraldur ríður yfir íslenskt samfélag og sérstaklega ungt fólk. Þar að auki er skemmtilegt að efniviðnum hafi verið safnað saman yfir tveggja vikna tímabil, og verkið kemur þannig inn á að hreinsa nærumhverfi sitt. Að lokum finnst okkur hugmyndin um að búa til fegurð úr einhverju sem er ljótt og skaðlegt lýsa listrænu innsæi þátttakandans.
Garðaskóli
Íris Eva Björnsdóttir, Sóley Andradóttir, Hafdís Marvinsdóttir, Lovísa Björg Georgsdóttir og Agla Benediktsdóttir
Umsögn dómnefndar
Í Diðrik flokkar er mikilvægum fróðleik um umhverfismál og skemmtilegum þrautum fléttað saman á eftirtektarverðan hátt. Myndirnar eru fallegar og valdeflandi fyrir lesendur að fá að takast á við vandann í gegnum þrautirnar. Boðskapurinn er skýr og gagnvirknin eykur á fræðslugildi bókarinnar. Það væri gaman að sjá hana bætast í flóru þrautabóka fyrir börn.
Urriðaholtsskóli
Katla Lena Ólafsdóttir, Rakel Kara Ragnarsdóttir og Sara Dís Ingólfsdóttir
Umsögn dómnefndar
Verkið Fegurð er fátt er skapandi leið til að miðla áhrifum loftslagsbreytinga á Jörðina. Málverkin þrjú sem mynda heildarverkið eru vel unnin og skilaboð þeirra eru skýr. Að baki hvers verks liggur greinileg rannsóknarvinna á bæði umhverfisvandamálum samtímans og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í verkunum má finna margvísleg smáatriði sem styrkja og dýpka hugmyndafræðina. Í þriðja verkinu má til dæmis sjá augnskuggapallettu sem er mynduð úr fánum mismunandi ríkja, þar eru fánar lágtekjulanda meira notaðir en fánar hátekjulanda, sem veitir verkinu aukið táknrænt gildi.
Sjálandsskóli
Kolbeinn Flóki Þórsson og Una Kristjana Hannesdóttir
Umsögn dómnefndar
Verkið Hraðtíska leiðir áhorfendur í gegnum fræðandi ferðalag um neikvæð áhrif hraðtísku á umhverfið. Myndbandið nær að varpa ljósi á alvarleika málsins á einfaldan, aðgengilegan og mannlegan hátt, sem gerir það skiljanlegt fyrir breiðan hóp. Með húmor tekst nemendum að miðla flóknum skilaboðum og ljóst er að að baki liggur vönduð rannsóknarvinna. Verkefnið dregur fram þau djúpstæðu vandamál sem fylgja ofneyslu og sýnir hvernig áhrifin ná langt út fyrir okkar daglega veruleika, til fólks og samfélaga í öðrum heimshlutum. Að lokum býður verkið upp á raunsæjar og framkvæmanlegar lausnir sem hvetja áhorfendur til að taka ábyrgð og tileinka sér sjálfbærari lifnaðarhætti.
Garðaskóli
Íris Eva Björnsdóttir, Sóley Andradóttir, Hafdís Marvinsdóttir, Lovísa Björg Georgsdóttir og Agla Benediktsdóttir
Umsögn dómnefndar
Diðrik flokkar er einstaklega frumlegt og vel unnið verk. Framsetningin er skýr og falleg, bókin sjálf er full af gagnvirkum og fjölbreyttum verkefnum og greinilegt er að höfundar hafa hugsað út í markhópinn og að bókin myndi höfða til sem flestra. Við myndum vilja sjá Diðrik flokkar á öllum grunnskólabókasöfnum!
Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna
Menntaskólinn við Sund
Brynja Karen Hjaltested, Berglind Reynisdóttir og Úlfdís Vala Brekadóttir
Umsögn dómnefndar
Myndbandið er vel unnið og greinilegt að höfundar hafa lagt á sig mikla vinnu til að draga upp greinandi og gagnrýna mynd af stöðu umhverfismála bæði alþjóðlega sem og hér á landi. Höfundar hafa hugrekki til að spyrja stórra spurninga um stöðu heimsmarkmiðanna, viðtöl eru upplýsandi og áhugaverð, aðferðin rannsakandi og vel til þess fallin að vekja áhorfendur til umhugsunar.