Search
Close this search box.

Landshlutafundur á Norðurlandi

Landshlutafundur Grænfánans á Norðurlandi dagana 22. og 23. apríl

Dagana 22. og 23.apríl voru haldnir landshlutafundir Grænfánans á Norðurlandi. Landshlutafundirnir eru ætlaðir Grænfánaskólum á svæðinu, auk þess sem skólar sem hafa áhuga er velkomið að senda sinn fulltrúa.  

Fundirnir voru haldnir í Stórutjarnaskóla í blíðaskapar veðri, en greinileg merki voru um snjóþung vetralok. 

Fyrri daginn var fundur tileinkaður eldri skólastigum. Í ár er sú nýjung á Landshlutafundum að nemendum á unglingastigi og í framhaldsskólum er boðið að mæta á Loftslagsþing Grænfánans. Flestir nemendur á þinginu eru í umhverfisnefnd í sínum skóla. 

Fyrir hádegi var nemendum og kennurum skipt upp. Nemendur fengu fræðslu um stöðu loftslagsmála, rætt var hvernig einstaklingar geta haft áhrif og einnig hversu mikla ábyrgð stjórnvöld bera. Farið var í fjölbreytta leiki þar sem nemendur skoðuðu m.a. eigin hegðun og hugsanir er tengjast náttúru og umhverfismálum. Kennarar fengu fræðslu um Grænfánann og fyrirlestur um hvað felst í menntun til sjálfbærni og hvernig slík menntun birtist á eldri skólastigum.  

Lærum hvert af öðru, er liður á fundunum þar sem skólar segja frá vel heppnuðum Grænfánaverkefnum. Fulltrúar Brekkuskóla Hafdís Kristjánsdóttir, Sigrún Héðinsdóttir, Ágústa Karlsdóttir, Anton Dagur og Katrín Karlinna sögðu frá áhugaverðu kennslufyrirkomulagi í skólanum þar sem nemendur fá tækifæri til aukinnar hreyfingar í náminu. Dagurinn er brotinn upp með fjölbreyttum hléæfingum t.d. jóga, göngutúrum, dansi o.fl.. 
Fulltrúar Síðuskóla þær Erna Björg Guðjónsdóttir, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir, Brynhildur Rós og Heiða María Arnardóttir sögðu frá vinsælli flokkunarkeppni sem haldinn er í skólanum ár hvert. Markmiðið er meðal annars að kenna þeim yngri flokkunar fyrirkomulag skólans en ekki síður til þess að rifja upp og minna á hvernig skólinn flokkar. Í aðdraganda keppninnar fer fram fræðsla um flokkun og endurnýtingu. 

Brekkuskóli segir frá hvernig hefur tekist að vinna með lýðheilsuþemað innan skólans

Síðuskóli segir frá sinni árlegu flokkunarkeppni

Eftir hádegi voru kennarar og nemendur saman á Loftslagsþingi. Þar var unnið í ákveðnum skrefum að framtíðarsýn, markmiðssetningu, aðgerðaráætlun og hvaða aðgerðir skólar og einstaklingar geta gert til að minnka vistsporið og stuðla að betri heim. Það er óhætt að segja að Loftslagsþingið heppnaðist mjög vel, þátttakendur voru virkilega áhugasamir og hugmyndaríkir í verkefnavinnu og umræðum. Það var frábært að sjá hvað unga fólkið er meðvitað og hugmyndaríkt þegar kemur aðgerðum í loftslagsmálum.

Seinni dagurinn var tileinkaður leikskólastiginu. Þá mættu áhugasamir fulltrúar leikskólanna. Þátttakendur fengu fræðslu um Grænfánann, menntun til sjálfbærni og hvernig sú aðferðafræði birtist á fjölbreyttan hátt í leikskólastarfi. Gott tækifæri gafst til samræðna og skólar deildu milli sín fróðleik og reynslusögum af Grænfánaverkefnum.

Góður tími gafst til útiveru þar sem farið í umhverfisleiki. Í lok dagsins var námsefni leikskóla kynnt og verkefni unnin tengd náttúru og umhverfi.

Á fundinum voru góðar umræður á milli fulltrúa skólanna, en eitt  af markmiðum landshlutafunda er einmitt að skapa vettvang til þess að bera saman bækur og deila fróðleik og reynslu.

Frábær samvera með skólunum og við hvetjum þá til að halda áfram að valdefla skólasamfélagið í umhverfis- og sjálfbærnimálum með aðstoð Grænfánaverkefnisins.

Þökkum Stórutjarnaskóla fyrir frábærar móttökur

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is