Search
Close this search box.

Sigurvegarar í Umhverfisfréttafólki 2024

Verðlaunaafhending í verkefninu Umhverfisfréttafólk fór fram föstudaginn 3.maí.

Á uppskeruhátíð Umhverfisfréttafólks voru veitt verðlaun í keppninni en á hverju ári berast fjölmörg vönduð og fjölbreytt verkefni frá skólum víðsvegar á landinu. Í ár voru það m.a. spil, myndbönd, hlaðvarp, ljóð, gjörningur, listaverk, handrit að leikriti, ljósmyndir og rapplag. Eins og fyrrum sigurvegari frá Vogaskóla sagði í ræðu sinni á uppskeruhátíðinni þá er nemendum treyst til þess að vinna með flókin málefni á opinn og skapandi hátt. Í ár var keppnin hörð og gæði verkefna mikil.

Í framhaldsskólum sigruðu nemendur Tækniskólans þau, Baltasar Diljan Rúnarsson, Kristófer Birgisson, Lóa Margrét Hauksdóttir, Óliver Ben Viðarsson og Sigrún Ólafsdóttir með gjörninginn Sannleiksmolar – Ljúfsárt lostæti.

Umsögn dómnefndar: Vel útfærð og áhrifarík neytendaskömmun. Sjaldan hefur súkkulaðilöngun dómnefndarmeðlima verið kveðin jafn hratt í kútinn. Að baki verkefninu liggur mikil heimildarvinna og tekur það bæði til sögulegra, umhverfislegra, félagslegra og pólitískra þátta. Niðurstaðan sjálf, þ.e. konfektkassinn, er skýr, grípandi og vel framsett lausn. Handverk í stað fjöldaframleiðslu er viðeigandi útfærsla.

Í grunnskólum sigruðu nemendur í Garðaskóla þau Hildur Nanna Halldórsdóttir, Auður Krista Finnsd. Thorlacius, Sebastian Ólafsson og Máni Þór með bókina Ferðalag Höllu hettupeysu

Umsögn dómnefndar: Saga Höllu hettupeysu er frábærlega vel unnið og vel útfært fræðsluefni. Hugmyndin að söguþræðinum er sniðug og setur okkar eigin persónulegu neyslu í stærra samhengi á sterkan hátt. Spurningarnar á hverri opnu bera vitni um vel framsett og vandað verk. Hin nýja Bláa kanna!

Dómnefndina í ár skipuðu

Ingunn Lára Kristjánsdóttir verkefnastjóri fréttaþjónustu á samfélagsmiðlum, stundum þekkt sem TikTok fréttamaðurinn, leikstjóri og handritshöfundur

Rán Flygenring mynd- og rithöfundur

Sigyn Blöndal fjölmiðlafræðingur, framleiðandi og sérfræðingur í réttindum barna hjá UNICEF

Ungir umhverfissinnar veittu sérstök verðlaun fyrir flokkinn Val unga fólksins.

Í framhaldsskólum var það spilið Hafið og við – Mitt græna vistspor Elísabet Nótt Guðmundsdóttir, Þórunn Birna Kristinsdóttir, Flora Neumann frá Menntaskólanum á Akureyri.

Í grunnskólum var það fræðslumyndbandið Plast í umhverfinu og hvað við erum að gera í því? Eftir Einar Einarsson úr Sjálandsskóla sem hlutu verðalaunin Val unga fólksins

Hvatningarverðlaun fengu þau Nadia Hólm Jónsdóttir, Róbert Bragi Kárason og Hugrún Birta Bergmannsdóttir nemendur frá Menntaskólanum á Akureyri  fyrir hlaðvarpið Náttúra með smjöri, hvatning til þeirra til þess að halda áfram að fjalla um umhverfismál á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt út frá heimsmarkmiðunum.

Auk verðlaunaafhendingar mættu sigurvegarar síðasta árs sem sögðu frá reynslu sinni, Lalli töframaður skemmti gestum og listamaðurinn Ezzi setti lokapunktinn á hátíðinni með flutningi á rapplaginu Við erum að drepa apana sem var jafnframt framlag hans í keppnina í ár.

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju með vel unnin störf og einnig öllum þeim sem sendu verkefni í keppnina. Hér má sjá öll þau verkefni sem unnu til verðlauna í ár ásamt umsögnum dómara.

Við hlökkum til að taka á móti nýjum verkefnum að ári og hvetjum þá sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið betur að gera það hér fyrir neðan eða hafa samband með því að senda póst á umhverfisfrettafolk@landvernd.is

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is