Dagur íslenskrar náttúru

grænfánadagurinn
Senn líður að Degi íslenskrar náttúru sem haldinn er hátíðlegur árlega þann 16.september. Skólar eru hvattir til að gera deginum hátt undir höfði og nýta sér verkefni í tengslum við daginn sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Grænfáninn, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms hjá Reykjavíkurborg hafa lagt til.

Dagur íslenskrar náttúru 2024

 

Lífbreytileiki er okkur ofarlega í huga þetta árið sem önnur. Verkefnin sem lögð eru til tengjast öll lífbreytileika í nágrenni skólans.

Yngsta stig – Hver býr hér? Nemendur rannsaka náttúrusvæði í nágrenni skólans. Hvernig svæði er þetta og hvaða dýr og plöntur eru þar. Hvað felur sig í jarðveginum eða undir steini? Nemendur kynnast náttúrusvæði í nágrenni skólans og átta sig á að þar eru ólíkar tegundir plantna og dýra. Verkefnið eykur meðvitund nemenda um ólíkar tegundir, þeir velta fyrir sér búsvæðum og læra að þekkja hluti í náttúrunni.

Miðstig – Plöntuskoðun. Nemendur fara í plöntuskoðun og skoða innlendar íslenskar plöntur í nágrenni skólans. Að auki læra þau að skilja mikilvægi plantna í íslenskri náttúru og að þekkja búsvæði þeirra og mikilvægi þess að vernda lífbreytileika þessara vistkerfa.

Unglingastig – Lífbreytileiki í byggð. Nemendur skoða nærumhverfið sitt með lífbreytileika í huga útfrá hugtökunum innlend tegund, framandi tegund og ágeng tegund. Nemendur velta fyrir sér áskorunum sem felast í því að vernda lífbreytileika.

Við hvetjum alla skóla til að halda Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan og vonumst til að sem flestir nýti sér verkefnið til að njóta dagsins og vekja athygli á lífbreytileika náttúru og nærumhverfis.

Skólar eru enn fremur hvattir til að deila myndum af verkefnunum með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms og er hægt að gera það með því að senda póst á netfangið urn@urn.is.

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is