Námskeið fyrir kennara og heimsóknir skólahópa í Alviðru haustið 2025

Alviðra er ævintýraheimur og fræðslusetur Landverndar og býður nemendur, kennara og námshópa velkomna til útiveru og kennslu á tímabilinu frá 8. september til 11. október.

Námskeið

Námskeið fyrir kennara og aðra áhugasama um útinám og útivist í Alviðru sem verður haldið fimmtudaginn 11. september kl. 12:00 til 16:00. Jakob Frímann Þorsteinsson, doktor á sviði útimenntunar og aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ greinir frá gildi og möguleikum útináms og útivistar í skóla- og frístundastarfi. Grænfánateymi Landverndar kynna verkefni til útikennslu. Þá verður farið yfir möguleika til útiveru og upplifunar í Alviðru.

Boðið verður upp á hádegisverð kl.12:00 áður en formleg dagskrá hefst.

Þátttökugjald er 5.000 kr.

Skráning á netfangið graenfaninn@landvernd.is fyrir 9.september

Alviðra fyrir skólahópa

Það er mikið um að vera í lífríkinu þegar líður að hausti. Farfuglarnir hópa sig og undirbúa langflug á vetrarstöðvarnar. Blómin fölna og laufin gulna. Plöntur og grös kasta frá sér fræum sem spíra og þroskast þegar vorar. Smádýr leita að holum til vetrarskjóls. Bláber, krækiber, villijarðarber og hrútaber þroskast í hlíðum Ingólfsfjalls. Á Soginu synda álftir með ungum og í hyljunum synda misstórir fiskar.

Alviðra er ævintýraheimur og fræðslusetur Landverndar og býður nemendur, kennara og námshópa velkomna til útiveru og kennslu á tímabilinu frá 8. september til 11. október.

Vinsamlegast tilgreinið óskatíma, aldur og fjölda nemenda og hvaða námsefni (vatn, gróður, fuglar, jarðfræði, ræktun) ætlunin er að taka fyrir í skóla náttúrunnar. Með góðum fyrirvara gætum við virkjað sjálfboðaliða til að aðstoða kennara. Alviðra er rétt hjá Þrastarlundi og um 10 km. frá Selfossi. Góð aðstaða er í lítilli kennslustofu í bænum og svo má einnig nýta gamla hlöðu og fjós. Dagsdvöl í Alviðru býður upp á fjölbreytta náttúru til að njóta og
skoða. Hlíðar Ingólfsfjalls eru hentugar fyrir fræðslu um jarðfræði og Sogið um lífið í vatninu og heimkynni fugla. Í Öndverðarnesi er birkiskógur og þar er skemmtileg gönguleið að mótum lindár og jökulár, Sogsins og Hvítár. Uppstoppaðir fuglar, tæki og handbækur eru í Alviðru. Í Alviðru er fjölbreytilegur gróður til að njóta og greina.

Gjald fyrir heimsókn er 25.000 kr. fyrir allt að 25 manna hóp. Ef hópar eru stærri er samið um gjald. Aðgangur er að eldhúsi. Gistiaðstaða er fyrir allt að 20 manns í svefnsal og kostar 2.000 kr. pr. mann fyrirbörn á  grunnskólaaldri.

 

Nú er rétti tíminn til að taka frá tíma með því að senda skilaboð á netfangið tryggvifel@gmail.com.

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is