Search
Close this search box.

Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni 22.maí

Votlendi
Fögnum lífbreytileikanum! Grænfáninn og Landvernd hvetja kennara og nemendur að vinna verkefni tengd lífbreytileika í tilefni dagsins og deila á sínum miðlum.

Lífbreytileiki - meira en bara tegundir

Líffræðileg fjölbreytni, eða einfaldlega lífbreytileiki, nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera sem til eru. Það er hægt að horfa á lífbreytileika á þrjá mismunandi vegu: lífbreytileika innan tegunda, milli tegunda og milli og innan vistkerfa.

Í fyrsta lagi eru einstaklingar af sömu tegund ólíkir. Í öðru lagi nær lífbreytileiki yfir allar þær fjölmörgu tegundir lífvera sem búa á Jörðinni. Í þriðja lagi eru allar lífverur hluti af sínu vistkerfi og lífbreytileiki nær einnig yfir breytileika milli vistkerfa. Lífbreytileiki er mikilvægur til að náttúran geti brugðist við breytingum, eins og þurrkum og sjúkdómum.

Eins og þið sjáið þá er lífbreytileiki svo miklu meira en bara fjöldi tegunda. Í hitabeltinu finnast mjög margar tegundir en við heimskautin finnast fáar tegundir í samanburði og það er eðlilegt ástand. Einföld heimskautavistkerfi eins og á Íslandi geta verið í mjög góðu ástandi og ekki æskilegt að þar sé bætt við fleiri tegundum, því ef innfluttar tegundir reynast vera ágengar þá getur það valdið tapi á lífbreytileika.

Lífbreytileiki á Íslandi

Ísland er ung eyja í úthafinu og það er nokkuð stutt frá síðasta jökulskeiði. Þess vegna eru hér fáar tegundir miðað við meginlöndin og margar tegundanna hafa þróast öðruvísi hér en annars staðar. Á eldfjallaeyjunni okkar eru einstök og fjölbreytt búsvæði fyrir lífríki og lítil samkeppni á milli tegunda. Þetta býr til góðar aðstæður fyrir þróun tegunda og á Íslandi er því að finna óvenjulega mikinn breytileika innan tegunda. Má þar nefna t.d. bleikjuna í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði hafa þróast úr einni tegund á einungis 10 þúsund árum. Þetta eru sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja en þær eru misstórar og eiga sér ólík búsvæði. Einnig hefur fundist mikill breytileiki hjá fleiri tegundum eins og hornsíli, birki og víðitegundum.

Á Íslandi er að finna lífverur og vistkerfi sem eru einstök á heimsvísu. Þessar aðstæður veita lífverum óvenjuleg tækifæri og því eru margar þeirra í hraðri þróun. Náttúra Íslands og einstakur lífbreytileiki hennar er því sannarlega þess virði að vernda og varðveita.

Verkefni og námsefni um lífbreytileika

Landvernd og Grænfáninn hafa þróað og búið til fjölmörg verkefni og námsefni sem tengjast lífbreytileika. Með því að nýta nýja hugtakabankann á síðunni má nálgast fræðslu á formi texta, myndbands og verkefna fyrir alla aldurshópa. Lífbreytileiki – hugtakabanki

Fleiri verkefni má finna í verkefnakistu Grænfánans. Hægt er að fletta upp þemanu Lífbreytileiki 

Námsefni úr smiðju Grænfánans og Landverndar

Lifandi náttúra – lífbreytileiki á tækniöld – safn verkefna fyrir eldri hópar leikskóla og yngsta stig grunnskóla

Menntun til sjálfbærni – handbók fyrir kennara

Náttúra til framtíðar – námsefni fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla

Náttúra til framtíðar – kennsluleiðbeiningar

Náttúra til framtíðar – kynningarmyndband

Náttúran okkar – námsefni fyrir miðstig grunnskóla

Náttúran okkar – verkefnavefur

Náttúran okkar – kennsluleiðbeiningar

Saman gegn matarsóun – námsefni og kennsluleiðbeiningar fyrir 5.-10. bekk grunnskóla

Fleiri fréttir

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is